Katrín Jakobsdóttir fór um víðan völl þegar hún ávarpaði flokksfélaga sína í ræðu sinni í gegnum fjarfundarbúnað á flokksráðsfundi Vinstri grænna nú um tíu.
Katrín ræddi um verðbólguna og gaf lítið fyrir þá gagnrýni að stjórnvöld hafi farið í of miklar efnahagsaðgerðir í gegnum faraldurinn og bendir á að í upphafi voru stjórnvöld gagnrýnd fyrir of lítinn stuðning. Auk þess sé allur heimurinn að glíma við verðbólgu og jafnvel hærri verðbólgu en hér á Íslandi.
Einnig var staðan á húsnæðismarkaði rædd og sagði hún að undirliggjandi ástæða fyrir miklum hækkunum á fasteignaverði væri skortur á framboði á húsnæði og þeirri eftirspurn þyrfti að mæta.
Katrín ræddi einnig um orkumálin og mikilvægi þess að forgangsraða í þeim málum.
Að lokum stappaði hún stálinu í sína flokksmenn og hvatti þá til dáða í komandi sveitarstjórnarkosningum en áréttaði að til þess að flokknum myndi vegna vel í þeim kosningum þyrftu allir að leggja hönd á plóg.