Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður Fylkis, sækist eftir þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri flokksins sem fer fram í næsta mánuði.
Björn er fæddur 5. apríl 1955 og ólst upp í Vogahverfinu í Reykjavík. Hann stundaði íþróttir af kappi á sínum yngri árum og spilaði handbolta með Fram. Björn er kvæntur Karólínu Gunnarsdóttur og eiga þau þrjú börn.
Björn er trésmiður að mennt en hann hlaut meistararéttindi árið 1982. Hann hóf störf hjá Slökkviliði Reykjavíkur árið 1981 og varð þar varðstjóri og síðar sviðsstjóri. Hjá slökkviliðinu sótti Björn margvísleg námskeið og sinnti fjölbreyttum störfum, meðal annars kennslu, forvörnum og stjórnun á sviði almannavarna. Hann var framkvæmdastjóri SHS fasteigna ehf. frá árinu 2001. SHS fasteignir eru dótturfélag Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Félagið stóð meðal annars að byggingu Björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð þar sem allir lykilaðilar í björgunarstörfum á Íslandi starfa.
Á kjörtímabilinu hefur Björn setið í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði og öldungaráði. Þá situr hann nú í umhverfis- og heilbrigðisráði, Innkaupa- og framkvæmdaráði, íbúðaráði Árbæjar og Norðlingaholts og er varamaður í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Enn fremur á Björn sæti í stjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og leigufélagsins Bríet.
„Í störfum mínum sem borgarfulltrúi og áður sem varaborgarfulltrúi hef ég öðlast yfirgripsmikla þekkingu á málefnum borgarinnar. Rekstur borgarinnar snertir flest svið mannlegs lífs eins og gefur að skilja,“ segir Björn, en hann hyggst beita sér fyrir bættum samgöngum og auknu lóðaframboði. Hann segir að bregðast þurfi hratt við hækkandi húsnæðisverði og minnkandi framboði á húsnæði.
Hann hyggst beita sér fyrir auknu aðgengi barna og ungmenna að íþrótta- og tómstundastarfi með þátttöku borgarinnar, sem og aðgengi aldraðra að skipulagðri íþróttastarfsemi. Þá leggur hann áherslu á að í leik- og grunnskólum verði nám sem hæfi öllum og fleiri valkostir verði í boði þegar kemur að námsleiðum og fjölbreyttari rekstraformum skóla.