Þau eru stór úrlausnarefnin sem blasa við Runólfi Pálssyni, nýskipuðum forstjóra Landspítala, en hann er ekki í nokkrum vafa um að í þeim felist tækifæri fyrir spítalann.
„Mér finnst fráleitt að ætlast til að yfirvöld komi og lagi ástandið fyrir okkur; við verðum að gera það sjálf. Það er átaksverkefni en í mínum huga eru klár sóknarfæri víða, ekki síst í skipulagi. Kerfið er í eðli sínu íhaldssamt enda hefur það að mestu leyti gefist vel. En það hefur þanist út og við því þarf að bregðast. Sjúklingurinn á alltaf að vera í öndvegi og út frá því verðum við að vinna. Við verðum að sníða þjónustuna að þörfum fólksins í landinu.“
– Hversu hátt hlutfall starfseminnar væri hægt að flytja annað?
„Því get ég ekki svarað á þessari stundu; það þarf að greina. En ég tel að efla eigi bráðaþjónustu sjúkrahúsanna í Kraganum. Eins mætti sinna endurhæfingarþjónustu fyrir aldraða að verulegu leyti annars staðar en á Landspítala.“
– Lítur þú svo á að því fylgi fleiri kostir en gallar að þú komir að innan? Sumir segja að best hefði verið að fá utanaðkomandi mann til að taka við starfi forstjóra.
„Almennt séð held ég að gott sé að fá af og til utanaðkomandi aðila til að koma inn með ferska strauma. Ég hef líka verið spurður að því hvort forstjórinn þurfi endilega að vera læknir. Auðvitað er það ekki svo en staðreyndin er eigi að síður sú að á þekktustu sjúkrahúsum heims eru forstjórarnir oft læknar. Einnig hefur færst í vöxt að fólk með viðskipta- eða rekstrarmenntun sé þjálfað upp í stjórnun og rekstri stórra heilbrigðisstofnana, hvort sem það er á viðkomandi stofnun eða einhverri annarri. Hvað Landspítala varðar þá höfum við kannski ekki mikla völ á ferskum straumum utan frá, nema þá helst frá útlöndum. Sjálfur bjóst ég til dæmis við fleiri umsækjendum utan spítalans, í ljósi umræðunnar sem hefur verið í gangi. Hvað mig sjálfan varðar þá vona ég að minn bakgrunnur sé það fjölbreyttur að ég hafi eitthvað nýtt fram að færa.“
Oft er sagt að mannauðurinn sé verðmætasta eign fyrirtækja og stofnana og Runólfur segir brýnt að hlúa betur að starfsfólki spítalans.
„Mannauðurinn er okkar verðmætasta og um leið viðkvæmasta auðlind og auðvitað óttumst við brottfall í okkar takmarkaða mannafla, fólk er orðið langþreytt eftir tveggja ára baráttu við faraldurinn. Vegna þess hversu erfiður reksturinn hér hefur verið höfum við ekki verið í aðstöðu til að gera nógu vel við starfsfólkið. Vinnuumhverfið er ekki nógu gott og við höfum ekki getað bætt það vegna þess að við erum alltaf að bjarga hlutum fyrir horn. Það er mjög mikilvægt að lagfæra.
Umræðan um kulnun hefur verið áberandi og var reyndar hafin áður en farsóttin skall á. Það er brýnt að leita leiða til að auka vellíðan og ánægju starfsfólksins. Við þurfum að mennta og þjálfa fleira fólk og gera starfið hérna meira aðlaðandi. Við verðum að tryggja næga nýliðun til að manna störfin í heilbrigðisþjónustunni í framtíðinni. Síðustu ár hefur mikil áhersla verið lögð á að efla sérnám í læknisfræði hér á landi því námslæknarnir eru mikilvægir starfskraftar sem við höfum misst til annarra landa í gegnum tíðina.
Okkar vel menntuðu hjúkrunarfræðingar eru sannarlega burðarás en það þarf líka að fjölga öðru starfsfólki sem vinnur við umönnun, einkum sjúkraliðum. Við getum þó ekki gert ráð fyrir því að allir sem ljúka námi í heilbrigðisvísindagreinum hér verði sjálfkrafa starfsmenn Landspítalans. Margvísleg önnur störf eru í boði, hér heima og erlendis, sem við þurfum að geta keppt við,“ segir Runólfur og bætir við að ekki megi gleyma því að lífsviðhorf hinna nýju kynslóða sé um margt frábrugðið því sem þekktist áður.
Ítarlega er rætt við Runólf í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.