Leigubílstjórar áttu í vandræðum með ölvaða farþega víða á höfuðborgarsvæðinu í nótt en töluvert var um ölvun í miðbænum, samkvæmt dagbók lögreglunnar.
Þá var eitthvað um að lögregla þyrfti að stöðva ökumenn undir áhrifum áfengis, fíkniefna og lyfja.
Tveir einstaklingar voru handteknir grunaðir um framleiðslu fíkniefna í Breiðholti og lagði lögregla hald á meint fíkniefni og búnað. Aðilarnir voru látnir lausir að skýrslutöku lokinni.
Umferðaróhapp varð á Bíldshöfða um kvöldmatarleytið í gær og er annar ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna.
Þá var tilkynnt um aðila á rafmagnshlaupahjóli á Miklubraut í nótt, á leið í austurátt. Hann var hjálmlaus og sást illa í myrkrinu, að segir í dagbók lögreglu.