Heilbrigðisráðherra kynnti verulegar afléttingar á samfélagslegum takmörkunum vegna heimsfaraldurs Covid-19 að ríkisstjórnarfundi loknum í gær.
Tíðindin eru flestum menntskælingum til mikillar gleði en skólareglugerð sem er í gildi um grunn- og framhaldsskóla mun falla úr gildi með nýjum afléttingum. Því verður heimilt að halda skólaskemmtanir án nokkurra takmarkana.
„Það ríkir mjög mikil gleði meðal verzlinga og eflaust allra framhaldsskólanemenda,“ segir Kári Freyr Kristinsson, forseti nemendafélags Verzlunarskóla Íslands, í samtali við mbl.is.
Hann kveðst þakklátur fyrir að stjórnvöld hefðu hlustað á ákall nemenda, en undanfarnar vikur hafa framhalds- og menntaskólanemendur látið í sér heyra á samfélagsmiðlum og vakið athygli á hvað samfélagslegar takmarkanir í faraldrinum hafi litað menntaskólagöngu margra nemenda.
„Það hefði verið svo auðvelt að segja ekki neitt og þá væri þetta örugglega ekki svona í dag en sem betur fer höfum við núna, við sem erum í forystu í nemendafélögum, tekið okkur saman og aðeins látið í okkur heyra,“ segir Kári.
„Þar sem að það eru ennþá takmarkanir á öðrum sviðum samfélagsins en nú engar takmarkanir hjá framhaldsskólum, þá sýnist mér þetta vera merki um að það hafi verið hlustað á okkur.“
Kári segir tíðindin dýrmæt fyrir útskriftarnemendur, sem fá að eignast minningar af seinustu vikum sínum í skólanum án takmarkana. Áður hafði verið tilkynnt um afléttingar eftir um sex til átta vikur og því séu nemendur nú búnir að fá auka tíma án takmarkana sem þeir höfðu ekki búist við.
Hann segist búast við að finna fyrir miklum mun á andanum inni í skólanum á næstu vikum en nú fari nemendafélagið á fullt í að skipuleggja viðburði.
„Það eru allir sáttir með þetta, skólastjórnendur, kennarar og starfsfólk skólans, það samgleðjast allir okkur sem er mjög frábært og það gerir mann ennþá glaðari að finna fyrir stuðningnum frá þeim.“