Ljósmyndarinn og myndlistamaðurinn Óskar Hallgrímsson er búsettur í Kænugarði í Úkraínu. Hann segir að tilfinningin sem því fylgir nú sé ógnvekjandi.
Spennuþrungnasti dagurinn hafi verið í dag, þar sem borgaraþjónustan hafi gefið honum tilmæli um að fara úr landi.
„Við erum búin að fá tilmæli frá borgaraþjónustunni um að við ættum að koma okkur úr landi og frá danska sendiráðinu, sem sér um að þjónusta Íslendinga hér í landi. Það er bara verið að biðja fólk um að koma sér út af því að innrás er yfirvofandi,“ segir Óskar í samtali við mbl.is.
Hann segist þó ekki ætla að fara úr landi, heldur halda kyrru fyrir ásamt eiginkonu sinni.
Óskar segir daglegt líf halda áfram að ganga í borginni og að ekki sé hægt að sjá neinn mun á lífinu og tilverunni þrátt fyrir ógnina sem stafar af mögulegri innrás. Í dag hafi þó verið stór samstöðuganga í miðborginni.
„Tilfinningin er náttúrulega ógnvekjandi, sérstaklega í dag er búinn að vera spennuþrungnasti dagurinn myndi ég segja. Það er búið að gefa eiginlega öllum erlendum borgurum tilmæli um að koma sér út.“
Hann segir það ekki hafa verið tilfinning hans í gær, heldur hafi fólki þá verið ráðlagt að fara. Nú hljómi það meira eins og skipun.
Óskar segir spurningu flestra vera hversu mikil innrás Rússa verður en ekki hvort af henni verði. Bendir hann á að gervihnattamyndir sýni að herinn sé að færa sig nær landamærunum og að Rússar séu einnig komnir með nægilega mikinn mannafla til að ráðast inn í landið.
Hann segir meginógnina fyrir íbúa Kænugarðs felast í mögulegri innrás frá Hvíta-Rússlandi.
Um 140 þúsund hermenn séu búnir að raða sér upp eftir landamærunum, frá Krímskaga og alla leiðina norður eftir, en síðan sé ekki almennilega vitað hve margir hermenn séu innan Hvíta-Rússlands.
„Ef þeir myndu leggja af stað frá landamærunum og keyra eins hratt og þeir gætu, þá væru þeir komnir að Kyiv á þremur klukkutímum og gætu verið búnir að taka yfir borgina á tveimur til þremur dögum,“ segir Óskar og bætir við að það sé það sem fólk hræðist mest.