Ekki í mínum villtustu draumum

Sibilla flutti til Nice í Frakklandi þegar hún komst á …
Sibilla flutti til Nice í Frakklandi þegar hún komst á eftirlaun en hafði þá búið í Lettlandi, Rússlandi, Íslandi og Svíþjóð. Hún byrjaði að mála eftir sextugt og sýnir nú víða um heim.

Listakonan Sibilla Bjarnason býr í Nice í Frakklandi. Áður var hún tannlæknir bæði hérlendis og í Svíþjóð, en Sibilla giftist íslenskum manni sem hún kynntist í Moskvu. Hann lést ungur en Sibilla hefur ætíð verið íslenskur ríkisborgari og sýnir list sína víða um heim sem slíkur.

„Ég segi bara allt hið besta, sólin skín hér,“ segir Sibilla Bjarnason brosandi þegar blaðamaður nær í hana í gegnum myndsímtal til Nice í Frakklandi. Sibilla er komin á níræðisaldur þó það sé ekki að sjá en á skjánum má sjá afar unglega lífsglaða konu með fallegt bros og blik í auga.

Hún hefur komið víða við í lífinu og búið í Lettlandi, þar sem hún fæddist, í Moskvu, Íslandi, Svíþjóð og nú Frakklandi. Sibilla, sem gift var hinum íslenska menntamanni Reyni Bjarnasyni, hefur ekki búið hérlendis í áratugi en íslenskan hennar er stórgóð, enda heldur hún alltaf sambandi við vini og fjölskyldu Reynis heitins sem lést tæplega fertugur. Sibilla, sem var tannlæknir alla tíð, brennur nú fyrir myndlist, sýnir um heim allan og er hvergi nærri hætt.

Margt gerðist undir yfirborðinu

 „Ég er fædd í Lettlandi og kláraði þar háskólanám í tannlækningum og fór þá að vinna í Moskvu. Þar var ég í fimm ár og kynntist þar Reyni,“ segir Sibilla og aðspurð segir hún það langa sögu hvers vegna hún endaði þar. Blaðamaður segist hafa allan tímann í heiminum og Sibilla lætur tilleiðast að segja betur frá.  

„Það er kannski gott fyrir þína kynslóð að vita það, en í Sovétríkjunum var allt ofboðslega erfitt og lélegt, en margt sem var mjög gott. Allir nemendur fengu mánaðarlegan styrk á meðan þeir voru í námi, sem nam svona einum þriðja af tannlæknakaupi. Maður þurfti ekkert að borga, en skilyrðið var að þegar maður kláraði námið átti maður að vinna tvö ár fyrir ríkið. Ég fékk langan lista af stöðum sem vantaði tannlækni og ef maður var laus og liðugur átti maður að velja einn af þessum stöðum og vinna þar tvö ár án launa, en maður fékk allt ókeypis, íbúð og fleira. Mér fannst alveg ómögulegt að fara út í sveit og sá að það vantaði tannlækna í Moskvu og valdi það, en þetta var ævintýri fyrir mig, þá 21 árs,“ segir Sibilla og segist því hafa flutt til Moskvu árið 1961.

Hvernig var í Moskvu 1961?

„Ég skal segja þér að þetta var skemmtilegasti tími ævi minnar. Krústsjov var kominn til valda og með honum miklar breytingar. Á yfirborðinu var allt grátt en það gerðist margt undir yfirborðinu,“ segir Sibilla og segir að þarna hafi verið gróskumikið lista- og menningarlíf.

Engum sleppt úr landi

Hvernig kynntist þú Reyni?

„Hann var vottur í fyrsta brúðkaupi mínu, en hann var vinur eiginmanns míns fyrri, sem var frá Eistlandi. Mín saga er svo flókin að við getum talað í heilan dag,“ segir Sibilla og hlær dillandi hlátri. Blaðamaður segir það í góðu lagi og heldur áfram að rekja garnirnar úr Sibillu.

Sibilla og Reynir eru hér á mynd með einkadótturinni Signýju. …
Sibilla og Reynir eru hér á mynd með einkadótturinni Signýju. Reynir lést aðeins 39 ára gamall úr krabbameini í nýrum.

„Ég var gift þessum manni í þrjú ár og Reynir var í vinahópnum okkar. Þetta var hrikalega „interessant“ líf. Við vorum mikið með listafólki og blaðamönnum eins og þér; þetta var mjög spennandi. Ég hafði ekki hugmynd um að Reynir væri hrifinn af mér en ég varð smám saman hrifin af honum. Ég sá að hjónabandið mitt var ekki gott, en er ekki að ásaka manninn minn; það bara vantaði ástina,“ segir Sibilla.

„Við Reynir urðum ástfangin tiltölulega snemma en áttuðum okkur ekki á því strax. Ég skildi svo við manninn minn, en ég hefði alltaf gert það hvort sem er.“

Og giftist þú þá Reyni?

„Það mátti enginn giftast útlendingi; það var engum sleppt úr Sovétríkjunum. Ég var þá „offiser“ í hernum, eins og allir læknar. Ég þurfti að fá sérstakt leyfi til að vera sleppt úr landi. En þeir slepptu mér! Við giftumst í Lettlandi, en útlendingum var ekki leyft að koma til Lettlands. En Reynir talaði rússnesku og við fórum á skrifstofu þar sem fólk var gefið saman. Ég átti samtal við háttsettan rússneskan hershöfðingja sem gaf mér leyfi til að flytja úr landi til Íslands, sem var Natóland. Hann sagði við mig: „Þú virðist vera skynsöm stelpa, en veistu að þú ert að fara í óvinaland? Hvers vegna gerir þú þetta, dóttir mín?“ Ég svaraði: „Ástin.“ Hann hugsaði sig lengi um þar sem hann sat þarna hlaðinn orðum á búningnum og sagði svo: „Allt í lagi, ef þú lofar að þegja yfir leyndarmálinu set ég þig í dýpsta varalið hersins.“ Og mér var hleypt út,“ segir hún og brosir breitt.  

Áttum að vera njósnarar

Hjónin fluttu til Íslands árið 1968 og voru þá búin að eignast einkadótturina Signýju sem nú starfar sem læknir í Stokkhólmi. Blaðamann fýsir að vita hvað það þýddi að vera settur í „dýpsta varalið hersins“.

Áttir þú að vera njósnari?

„Já, það var ætlast til þess af okkur báðum af sovéska sendiráðinu á Íslandi. Reyni hafði verið boðið að þýða bók sem var eftir dóttur Stalíns, en hún var komin til Ameríku og gaf út ævisögu sína,“ segir Sibilla og áréttar að þarna voru kaldastríðsárin í algleymingi.

„Það komu til okkar hjón frá sendiráðinu, sem við þekktum, og sögðu okkur að Reynir mætti ekki þýða þessa bók. Ég spurði hann hvaða máli það skipti fyrir hann. Þá segir hann: „Voruð þið ekki farin að skilja að það er fylgst með ykkur?“ Svo viðurkenndi hann að það væri hans vinna hjá sendiráðinu að fylgjast með okkur. Þá skildi ég hvað væri í gangi. Hann sagði að ef honum tækist ekki að tala um fyrir okkur að sleppa þessu, þá myndi hann missa vinnuna. Ég brjálaðist alveg og henti honum út. Ég sá hann aldrei aftur; hann var horfinn. Sendur til baka,“ segir hún.

„Við höfðum ekki hugmynd um að hann væri njósnari.“

Hamingjuríkt hjónaband

Sibilla talaði ekki orð í íslensku þegar hún kom til Íslands en fékk fljótt vinnu hjá Jóni Hafstein tannlækni, bróður Hannesar Hafstein, og þar vann hún í mörg ár.

„Hann var alveg eins og faðir minn og þarna lærði ég íslensku. Ég var orðin nokkuð vinsæl því það voru þá ekki margar konur sem voru tannlæknar á Íslandi á þessum tíma,“ segir Sibilla og segist hafa átt góða tíma á Íslandi.

„Hjónabandið var mjög hamingjuríkt og landið yndislegt,“ segir Sibilla og segir að Reynir hafi seinna fengið nýrnakrabbamein og lést hann aðeins 39 ára að aldri.

„Hann var þá að klára sína doktorsritgerð frá Harvard. Dóttir okkar var um tólf ára gömul þegar hann lést,“ segir hún og segist að vonum hafa orðið fyrir miklu áfalli.

„Við mæðgur vorum áfram á Íslandi í tvö ár og vann ég áfram fulla vinnu sem tannlæknir. Svo fékk ég styrk frá Evrópuráðinu og ég mátti velja land sem ég vildi fara til í nokkra mánuði til að kynna mér nýjungar í tannlækningum. Svíþjóð var þá númer eitt í tannlæknafræðum og ég fór til Gautaborgar og svo eftir tvo mánuði var mér boðið starf við tannlæknadeildina í háskólanum. Ég vann þar í sex ár án þess að loka tannlæknastofunni heima í Domus Medica því ég ætlaði alltaf aftur. Í millitíðinni kláraði ég doktorsgráðu. Ég varð svo seinna deildarstjóri í tannlæknadeild háskólans í Gautaborg og var alþjóðlega þekktur vísindamaður á mínu sviði. Ég varð þarna einnig síðar prófessor og leiddi alla kennslu þar til ég fór á eftirlaun,“ segir Sibilla og segist ekki hafa giftst aftur.

„Ég hafði engan áhuga á því. Ég átti mjög áhugavert líf.“

Er alltaf fulltrúi Íslands

„Síðasta árið áður en ég hætti að vinna var ég farin að mála að gamni mínu. Ég hef nú haldið ótal sýningar og var árið 2009 kosin til að vera meðlimur í National Society of Fine Arts í Frakklandi. Mér er oft boðið að taka þátt í sýningum og ef fólk spyr af hverju, svara ég: „Ég veit það ekki“,“ segir hún og hlær.

Sibilla sést hér á sýningu sem bar nafnið Art Capital …
Sibilla sést hér á sýningu sem bar nafnið Art Capital og var í Grand Palace í París. Þar átti Sibilla fjölda verka.

 „Ég er með tvö vegabréf, íslenskt og lettneskt sem mér var gefið til baka, en ég nota alltaf íslenskan passa. Ég er alltaf fulltrúi Íslands á öllum sýningum, en ég hef sýnt í Louvre og víðar um heim. Ég er ekki að trana mér fram, en ég vinn líka með stórum alþjóðlegum grúppum,“ segir hún.  

„Nú fer ég fyrir Íslands hönd á tvíæringinn í Peking. Næst verð ég í Portúgal í sumar og svo er ég núna um miðjan mánuðinn á stórri sýningu í París þar sem tvö þúsund listamenn sýna. Og íslenski fáninn verður hjá mínum verkum. Ég sendi ekki lengur boð í sendiráðið, þeir koma aldrei. Og ég fer alltaf á sýningar sem fulltrúi Íslands en Ísland veit ekkert um mig,“ segir Sibilla kímin.

Sibilla vinnur mikið með kvenlíkamann. Hér bregður hún á leik …
Sibilla vinnur mikið með kvenlíkamann. Hér bregður hún á leik við eitt verka sinna.

 „Satt að segja er mér alveg sama. Ég vil bara sýna. Ég hef líka tekið þátt í Feneyjatvíæringi og er núna í ráði til að velja listamenn til að taka þátt í svona stórum listamessum.“ 

Hélt að þetta væri plat

En hvenær fluttir þú til Frakklands?

„Eftir að ég fór á eftirlaun. Ég valdi Nice af því borgin er mitt í Evrópu. Frakklandi heillaði mig og hér er dásamlegt loftslag; ég var búin að fá nóg af kuldanum. Ég er frjáls í fyrsta sinn á ævinni nú þegar ég er á eftirlaunum,“ segir Sibilla en hún hefur nú verið um tvo áratugi á eftirlaunum og nýtur sannarlega efri áranna. Fyrir utan listina hefur hún siglt seglskútum víða, en það er stórt áhugamál.  

„Ég var um 61 árs þegar ég byrjaði að mála, þá enn í Gautaborg, og mér fannst þetta svo gaman! Ári eftir að ég byrjaði að mála voru kollegar mínir að skipuleggja sýningu í háskólanum og þar var einhver galleristi sem sá fyrir tilviljun mínar myndir og hringdi í mig og ég hélt þá mína fyrstu sýningu. Ég seldi einhverjar fimmtíu myndir þarna. Stuttu síðar flutti ég svo til Nice þar sem ég þekkti engan. Ég var bara að mála þar í rólegheitum fyrir mig; þetta var mitt hobbí,“ segir Sibilla og segist síðar hafa opnað heimasíðu.  

Hér má sjá myndina af stríðsgyðju með hríðskotabyssu, en stytta …
Hér má sjá myndina af stríðsgyðju með hríðskotabyssu, en stytta af sömu gyðju er í Louvre.

„Þá fór ég að fá tölvupósta þar sem ég var beðin um að sýna en fyrst svaraði ég engu því ég hélt að þetta væri bara plat. Kínverska sendiráðið sendi mér póst í tvö, þrjú ár en ég svaraði aldrei. En smám saman fór ég að svara og þá var eftirspurn eftir mér að halda sýningar. Ég hef haldið sýningar út um allan heim. Nú er ég með sýningu í Malasíu og er orðin heiðursfélagi í Artist’s Society of Malaysia,“ segir Sibilla og segist einnig vera með verk á stórri heimssýningu í Kína.

Tek mig ekki hátíðlega

„Ég ferðast út um allt vegna sýninganna minna og hef meðal annars farið sex sinnum til Kína.“ 

Þegar þú fluttir til Nice og fórst að mála, þá hefur þig varla grunað að stuttu síðar værir þú farin að sýna út um allan heim?

„Ég trúi því varla ennþá! Alltaf þegar mér er boðið að sýna einhvers staðar finnst mér það bara hlægilegt. Mér líður oft eins og „imposter“, en þetta er bara svo mikið ævintýri. Ég tek sjálfa mig ekki hátíðlega, en þetta er skemmtilegt og það eru ekki margir á mínum aldri sem lifa svona lífi,“ segir hún og brosir.

Sibilla notar gjarnan blandaða tækni eins og í þessu verki. …
Sibilla notar gjarnan blandaða tækni eins og í þessu verki. Hún gerir það sem henni sýnist!

Selur þú mikið af verkum?

 „Það skiptir mig engu máli. Ég sel alveg og ég er með verk mín í galleríi og set upp ákveðið verð en verð ekkert rík af þessu, en þetta borgar fyrir mig allar ferðir og hótel, nema auðvitað þegar mér er boðið sem heiðurslistamanni,“ segir Sibilla og segir marga aðdáendur fylgjast með sér á Instagram.  

Þú byrjar sem sagt í vísindum en endar í listum!  

„Maður veit ekki hvar maður endar. Þetta var aldrei í mínum villtustu draumum.“ 

Ítarlegt viðtal er við Sibillu Bjarnason í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert