Þeir þrír sem handteknir voru vegna skotárásarinnar í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi voru fæddir á árunum 2002 og 2003 og þar með enginn þeirra eldri en tvítugur.
Einn drengjanna skaut mann í brjóstið. Var hinn særði fluttur á sjúkrahús til aðgerðar en er ekki talinn í bráðri hættu. Um og yfir tíu lögreglumenn vopnuðust vegna aðstæðna.
Er málið rannsakað sem tilraun til manndráps.
Þetta kemur fram í frétt vísis. Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn kveðst telja að lögreglan sé að ná töluvert utan um málið.
Tvær skotárásir hafa átt sér stað í vikunni sem nú er á enda og lögreglan kannar meðal annars hvort árásirnar tengist.
Grímur telur ekki ástæðu fyrir almenning að óttast en í báðum tilfellum sé um að ræða atburð þar sem árásarmaðurinn þekkir þann sem hann beinir skotvopni sínu að.
Yfirvöld hafa áhyggjur af auknum vopnaburði en sérsveit lögreglunnar fór í þrjú hundruð útköll á síðasta ári þar sem vopn komu til sögu, ýmist skotvopn eða eggvopn.