Er allt í lagi með þig? Dastu?

Nathan Myrvohld ferðast nú um Ísland og tekur vetrarmyndir. Hann …
Nathan Myrvohld ferðast nú um Ísland og tekur vetrarmyndir. Hann er með fullan bíl af háþróuðum myndavélum, margar sem hann hefur sjálfur hannað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nathan Myhrvold er veðurtepptur í fannferginu á Mývatni þegar blaðamaður nær tali af honum. Þessi frumkvöðull, vísindamaður, uppfinningamaður, rithöfundur, matreiðslumeistari og ljósmyndari kom til Íslands til að keyra hringinn í vetrarveðri til að mynda bæði landslag og norðurljós. Nathan vann lengi hjá Microsoft og einnig með Stephen Hawking, en hann fór fjórtán ára gamall í háskóla og er með gráður í stærðfræði, eðlisfræði og geimeðlisfræði og hagfræði og loks doktorspróf í eðlisfræði. Síðar fór hann til Frakklands í matreiðsluskóla, en ljósmyndun hafði hann kennt sér frá unga aldri. Hann rekur nú fyrirtækið Modernist Cuisine sem sérhæfir sig í gerð kokkabóka og matarljósmynda.

Alltaf haft ástríðu fyrir mat

Hvað ertu að gera á Mývatni?

„Í augnablikinu erum við að fela okkur fyrir óveðrinu eins og allir aðrir. Það blæs ansi hressilega hér,“ segir hann og hlær.

„En ferðin hefur verið frábær hingað til,“ segir Nathan.

Þegar búið var að ræða veðrið að hætti Íslendinga hellir blaðamaður sér út í að forvitnast um líf þessa fjölhæfa manns sem virðist vera með puttana í ýmsu.

Nú hefur þú unnið mikið í tölvu- og hugbúnaðarheiminum. Var það ást þín á mat og ljósmyndun sem varð til þess að þú tókst aðra stefnu í lífinu?

„Vandamál mitt er að ég hef alltaf haft áhuga á fjölmörgu en í heiminum í dag snýst allt um sérhæfingu. Fólk verður fært á einhverju einu sviði og það er það sem skilgreinir það. Mér fannst erfitt að halda mig við bara eitthvað eitt. Ég hef alltaf haft ástríðu fyrir mat, oftast sem neytandi en síðar lærði ég að elda og frekar nýlega gerðist ég höfundur kokkabóka. Í mínum huga er það eðlileg þróun. Það er mikilvægt að skilja vísindin á bak við matreiðsluna, að minnsta kosti eins og ég lít á það. Ég hef haft brennandi áhuga á ljósmyndun frá barnæsku. Í kokkabókunum mínum var auðvelt að koma hugmyndum okkar til skila með því að sýna þær á ljósmyndum til að sýna fólki hvað væri í gangi frekar en að segja því það,“ segir Nathan og segist með þessari vinnu ná að sameina mörg áhugamál.  

Í myndverinu í Bandaríkjunum tekur Nathan afar flóknar matarmyndir sem …
Í myndverinu í Bandaríkjunum tekur Nathan afar flóknar matarmyndir sem hann bæði selur í galleríum sínum og notar í kokkabækur sem hann skrifar. Nathan Myhrvold / Modernist Cuisine Gallery, LLC

„Ef ég hefði bara haldið mig við eitt efni hefði kannski eitthvað orðið úr mér!“ segir hann og hlær.

Kokkabók í sex bindum

Nathan stofnaði fyrirtækið Modernist Cuisine árið 2011 og hefur síðan gefið út margar kokkabækur og það enga smá doðranta!

„Ég skrifaði kokkabækur sem eiginlega fylgdu alls engum reglum venjulegra kokkabóka. Þegar ég skrifaði mína fyrstu kokkabók var ekki til ein einasta slík í Bandaríkjunum sem kostaði meira en 50 dollara. Mín kostaði 625 dollara,“ segir hann og segist aldrei hafa viljað fara venjulegu leiðina.

„Ég vildi að bókin hefði mikið og greinargott innihald en um leið að hún yrði falleg. Ég vissi ekki hvað margir myndu kaupa hana og hélt í byrjun að það yrðu bara nokkur hundruð manns. En nú er margbúið að endurprenta hana og þýða á mörg tungumál. Ég hef selt 250 þúsund eintök, sem er nokkuð gott fyrir bók sem kostar svona mikið!“ segir Nathan en þess má geta að bókin er 2.438 blaðsíður í sex bindum.

„Í eldhúsinu okkar viljum við segja sögu. Ef maður skilur matargerð í grunninn fær maður betri afurð. Það er það sem Modernist Cuisine snýst um; að finna upp nýjar aðferðir og skilja hvernig þær virka,“ segir Nathan.

Í tilraunaeldhúsinu hjá Modernist Cuisine leika menn sér gjarnan með …
Í tilraunaeldhúsinu hjá Modernist Cuisine leika menn sér gjarnan með að frysta hreyfingu. Í þessu tilfelli voru það kokteilar sem virðast svífa í lausu lofti. Ljósmynd/Nathan Myhrvold/Modernist Cuisine Gallery

Aðalsöluafurð okkar hjá Modernist Cuisine eru bækur og ljósmyndir,“ segir Nathan og útskýrir að hann sé með þrjú gallerí þar sem hann selur verk sín, í Seattle, La Jolla í Kaliforníu og New Orleans.

Beðið eftir að maður æli

Nathan hefur áður komið til Íslands og að sjálfsögðu smakkað hér þjóðlegan mat, þar með hákarl sem hann segir vera góðan. 

„Ég segi ekki að ég myndi vilja borða hann sí og æ, en mér fannst hann góður. Ég fór á stað þar sem þeir þurrka hann. Það var mikil lífsreynsla! Lyktin var eins og blanda af verstu fiskilykt með verstu þvaglykt sem hugsast getur. En ef maður kemst yfir ammóníaklyktina er bragðið ekki svo slæmt. Það er nú þannig að ef einhver segir við mann að eitthvað sé lostæti er það það yfirleitt ekki. Það þarf ekki að segja það til dæmis um ís, það myndi enginn bjóða þér ís og reyna að sannfæra þig um að hann væri lostæti,“ segir hann og hlær.

„Ég prófaði líka hrútspunga og svið. Ég hef smakkað skrítinn og ógeðslegan mat víða. Í Sardiníu er borinn fram ostur með lirfum. Þeir búa til ferskan ost eins og ricotta og skilja hann svo eftir utandyra þar til flugur verpa í hann eggjum og lirfur klekjast út. Þá er osturinn tekinn og settur í kindamaga, það saumað saman og látið gerjast í sex mánuði. Einhvern tímann í ferlinu bæta þeir alveg fáránlega miklu magni af salti saman við. Þetta er svolítið eins og með hákarlinn á Íslandi; þetta er svona innvígslumatur. Maður stendur þarna, aumingja útlendingurinn, með hóp af innfæddum í kringum sig sem bíða eftir að maður æli,“ segir hann og skellihlær.

Vann með Hawking

Við vendum kvæði okkar í kross og hættum að tala um mat, góðan eða slæman, og snúum okkur að ljósmyndun landslags og náttúru.

„Ég fékk mína fyrstu myndavél þegar ég var níu ára og þá kviknaði ljósmyndaáhuginn. Á sama aldri uppgötvaði ég kokkabækur og var farinn að elda þakkargjörðarmáltíð fyrir fjölskylduna. Í gaggó var ég mikið að mynda, en ég var líka mjög góður nemandi. Ég byrjaði í háskóla fjórtán ára gamall og tók þar margar gráður, í stærðfræði, eðlisfræði og fleiru. Það tók sinn tíma! Ég var enn aðeins að mynda samt. Sem eðlisfræðingur vann ég svo með Stephen Hawking,“ segir hann og segir hann hafa verið frábæran mentor sem hann hafi verið heppinn að fá að vinna með. Nathan segist hafa sótt um vinnu víða en þegar hann fékk símtal frá Bretlandi frá Stephen, sem var að bjóða honum vinnu, hélt hann fyrst að þetta væri brandari. En að sjálfsögðu tók hann tilboðinu.

„Ég elskaði að vinna með Stephen. Hann var snillingur sem sinnti sínum nemendum vel,“ segir Nathan sem stofnaði síðar fyrirtæki sem hann seldi Microsoft.

Nathan er heillaður af vetrarríkinu og myndar nú landslagið á …
Nathan er heillaður af vetrarríkinu og myndar nú landslagið á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég gerðist þá yfirmaður tæknimála hjá Microsoft. Þegar ég vann þar fékk ég nógu góð laun til að kaupa mér betri myndavélagræjur og fór þá að mynda meira náttúru og landslag. Þetta hefur verið um 1990 og ég tók allt á filmu en síðar varð allt stafrænt. Ég fór að mynda af meiri alvöru. Í dag mynda ég oft með mjög flókinni tækni og með mjög sérhæfðum myndavélum. Ég er með stórt myndver þar sem ég tek myndir í bækur mínar og margar af vélunum sem ég nota hef ég smíðað sjálfur því þær eru ekki til. Við erum með margar tölvufjarstýrðar myndavélar,“ segir hann og segist einmitt hafa hannað sérstaka míkrómyndavél til þess að mynda snjókorn.

Nathan hannaði sérstaka myndavél og tækni til að ná háskerpumyndum …
Nathan hannaði sérstaka myndavél og tækni til að ná háskerpumyndum af snjókornum. Hann var eitt og hálft ár að þróa þessar míkrómyndavélar. Nathan Myhrvold / Modernist Cuisine Gallery, LLC

Norðurljósin heilla

Nathan segist gjarnan taka panóramamyndir og notar til þess flókinn tölvubúnað þar sem margar vélar taka hundruð mynda sem er svo skeytt saman í eina.

Nathan náði þessari mynd af norðurljósunum í ferð sinni til …
Nathan náði þessari mynd af norðurljósunum í ferð sinni til Íslands, en til þess notaði hann sérstaka tækni og fjórar myndavélar sem taka myndir á sama tíma. Nathan Myhrvold / Modernist Cuisine Gallery, LLC

„Mig langaði að nota þessa tækni til að taka myndir af norðurljósunum en vandamálið er að norðurljósin hreyfast of hratt. Sama með hvirfilvind. Þannig að ég hannaði sérstakt kerfi véla fyrir svona myndatökur. Ég stilli þá upp fjórum myndavélum mjög nákvæmlega á mismunandi stöðum og tek mynd á þeim öllum á sama augnablikinu. Þannig næ ég flottri mynd af norðurljósum,“ segir Nathan.

„Það eru tvær hliðar á ljósmyndun, líkt og matreiðslu. Tæknin er önnur hliðin. Augljóslega þarf maður linsu og aðra tækni til að taka mynd. Hin hliðin er auðvitað hin listræna. Ég hef náð góðum tökum á tæknilegu hliðinni og vona að ég sé ágætur í listrænu hliðinni,“ segir hann og hlær.  

Nathan ferðist um heim allan til að mynda landslag, náttúru …
Nathan ferðist um heim allan til að mynda landslag, náttúru og dýr, en auk þess myndar hann mat í myndveri sínu. Nathan Myhrvold / Modernist Cuisine Gallery, LLC

„Það má segja að ég hafi komið til að mynda vetrarlandslag en í leiðinni vonast eftir að mynda norðurljós.“

Sést vel frá geimnum

Ertu að keyra hringinn?

„Já. Reyndar eru flestir vegir núna lokaðir,“ segir hann og skellihlær.

„Ég er uppalinn í Los Angeles þannig að snjór hefur alltaf verið mér framandi. Hér leggst ég gjarnan í snjóinn til að mynda snjókristalla og þá hlaupa leiðsögumennirnir mínir til mín og hrópa: „Er allt í lagi með þig? Dastu?“ Þeir eru svo vanir að sjá snjó að þeim finnst þetta ekkert sérstakt. Fyrir mér er þetta mjög kúl,“ segir hann.

„Ég var einmitt búinn að kaupa mér nýja skærappelsínugula úlpu fyrir ferðina, þannig að ef ég týnist í snjónum geta þeir komið auga á mig auðveldlega. Ég er eins og stór tómatur í snjónum. Ég mun sjást frá geimnum,“ segir hann og hlær.

Íshellar heilluðu Nathan á ferð sinni um landið og náði …
Íshellar heilluðu Nathan á ferð sinni um landið og náði hann þessari mynd í ferðinni. Nathan var líka heillaður af hrauni sem þakið var snjó. Ljósmynd/Nathan Myhrvold

Ítarlegt viðtal er við Nathan Myrhvold í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert