„Þarna eru tveir dómarar af þremur í Landsrétti að túlka á nýjan og óvenjulega þröngan hátt hugtakið „alvarlegur geðsjúkdómur“ eins og það er skilgreint í greinargerð með lögræðislögunum frá árinu 1997 þegar lögin voru samþykkt.
Þessi þrönga túlkun setur öryggi ákveðins hóps sjúklinga í hættu – það er einstaklinga með vel skilgreindan geðsjúkdóm, alvarlegt þunglyndi, sem eru með sjálfsvígsáform eða hafa gert alvarlega atlögu að lífi sínu en eru ekki með skýr geðrofseinkenni. Nauðungarvistun er fyrst og fremst gerð í þágu einstaklings sem er metinn í bráðri hættu og er ætlað að tryggja honum nauðsynlega meðferð í öruggari aðstæðum en oftast bjóðast heima fyrir.“
Þetta segir Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlæknisfræði og yfirlæknir við geðþjónustu Landspítala, og vísar til máls sem fjallað var um í Sunnudagsblaðinu fyrir réttri viku. Landsréttur sneri þá úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um nauðungarvistun manns á geðdeild í 21 dag.
Úrskurð sinn byggði rétturinn á því að geðhvörf teldust ekki til alvarlegs geðsjúkdóms í skilningi lögræðislaga nema geðrofseinkenna yrði vart með þeirri geðhæð eða geðlægð sem sjúkdómnum fylgja. Ekki yrði fullyrt af gögnum málsins að sóknaraðili hafi verið með geðrofseinkenni. Einn af þremur dómurum skilaði sératkvæði og var ósammála túlkun hinna tveggja.
Sjálfur hefur Engilbert skrifað ítarlegt bréf um úrskurð Landsréttar og sent dómsmálaráðuneytinu. „Bréfið snýst ekki um niðurstöðuna heldur leiðina að niðurstöðunni sem fær að mínu mati ekki staðist. Það breytir ekki því að þegar tveir dómarar í Landsrétti hafa skilið textann með þessum hætti þá er greinilega nauðsynlegt að endurbæta lagagreinina um skilyrði nauðungarvistunar og skýringartexta greinargerðarinnar við hana,“ segir hann.
Engilbert segir að varlega verði að fara þegar lagt er í þá vegferð að túlka þrengra en gert hefur verið til þessa aldarfjórðungsgamlan texta geðlæknis sem skrifaði skýringarnar við lagagreinina á sínum tíma með nokkrum dæmum, sem eru alls ekki tæmandi. Ekki síst eigi það við þegar fagaðilar eru ekki kvaddir til sem meðdómendur þegar ólík sjónarmið koma fram innan dómsins um niðurstöðuna og um leiðina að henni.
„Ekki ætla ég að gera lítið úr því að verkefni Landsréttardómara er ekki öfundsvert, að vinna slíkan dóm upp úr dómi héraðsdóms og misgreinargóðum læknisvottorðum.“
Nánar er rætt við Engilbert í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.