Þrír í haldi vegna skotárásar í miðbænum í nótt

Þrír karlmenn eru í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir að skotið var á karlmann utandyra í Ingólfsstræti í miðbænum í nótt. Tilkynning árásina barst um eittleytið. 

Sá sem fyrir árásinni varð tilkynnti sjálfur um hana, en viðkomandi var fluttur á slysadeild, gekkst þar undir aðgerð og er ekki í lífshættu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Mikill viðbúnaður var vegna málsins, en mennirnir þrír, sem allir eru Íslendingar, voru handteknir fljótlega eftir að rannsóknin hófst. Lagt hefur verið hald á skotvopn og bifreið í þágu rannsóknarinnar. 

Við aðgerðirnar í nótt naut lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra. 

Myndband af aðgerðum lögreglunnar var birt á Twitter í nótt en þar sést vopnuð sérsveitin leita að fólki í bílastæðahúsinu við Bergstaðastræti, en Ingólfsstræti er þar fyrir neðan.

mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert