Bræðurnir Ómar og Gunnar Torfasynir urðu í dag Worldloppet-meistarar en aðeins þrír Íslendingar hafa unnið til afreksins áður.
Til gamans má geta að allir Worldloppet-meistarar Íslands eru ættaðir frá Ísafirði, þar á meðal Ómar og Gunnar.
Worldloppet er skíðagöngukeppni sem gengur út á að ljúka tíu skíðagöngum í tíu löndum. Brautirnar eru á bilinu 50 til 90 kílómetra langar og geta tekið allt að níu klukkustundir, að sögn Ómars.
„Þetta gekk ljómandi vel, við erum núna komnir með gullpening og allar græjur,“ segir Ómar sem er staddur í Tékklandi þar sem hann var að ljúka síðustu göngunni.
Þau tíu lönd sem urðu fyrir valinu hjá Ómari og Gunnari voru; Kanada, Bandaríkin, Pólland, Eistland, Austurríki, Þýskaland, Ítalía, Tékkland, Svíþjóð og Ísland.
Ómar er fyrrum landsliðsmaður í knattspyrnu og var því ekki til setunnar boðið þrátt fyrir að leggja takkaskóna hilluna. Auk Worldloppet-afreksins hefur hann klárað sex stærstu maraþon heimsins ásamt eiginkonu sinni og lokið við íþróttaáskorunina sem kennd er við landvættina.
„Ég þarf þessa útrás eftir að ég hætti í boltanum, konan var þá á fullu í skokkinu en ég tók ekki við mér fyrr en tíu eða fimmtán árum seinna og fór að hlaupa með henni,“ segir Ómar.
Hann starfar sem einkaþjálfari auk þess sem hann þjálfar gönguskíði og knattspyrnu hjá yngri flokkum ÍR. Í dag leggur hann áherslu á að styrkja sig með hlaupunum og varð því mjög hrifinn af gönguskíðum, enda reyni þau á alla vöðva líkamans.
Gunnar var þó kveikjan að því að Ómar leiddist út í skíðagöngukeppnina.
„Ég er 63 ára í dag. Þegar ég varð fimmtugur fékk ég gönguskíðapakka og honum fylgdi áskorun að fara á Vasa. Sex árum seinna fæ ég símtal frá bróður mínum, að nú sé kominn tími til að fara á Vasaloppet.“
Gunnar skráði þá til leiks en Vasaloppet-brautin er 90 kílómetrar svo þeir bræður byrjuðu ekki á grynnri endanum. „Ég svaf illa fyrir þá göngu en svo var þetta bara svo skemmtilegt.“ Þá var tekin ákvörðun um að klára áskorunina í heild sinni með því að taka tvær keppnir á hverju ári.
Heimsfaraldurinn setti strik í reikninginn en ferlið tók á endanum sjö ár. „Ég verð betri með hverju árinu, æfingin skapar meistarann.“ Hann segist alls ekki ætla að hætta, „meðan druslan dregur“. Áskoranir sem þessar og hreyfing haldi manni ungum.