Útköllum vegna vopnaburðar fjölgar

Sigríður Björk segir að lögreglan fylgist vel með þessum málum.
Sigríður Björk segir að lögreglan fylgist vel með þessum málum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vopnaútköllum hjá sérsveit lögreglunnar hefur fjölgað á landinu á síðustu árum. Þrátt fyrir það hefur tilvikum þar sem vopnum er beitt ekki fjölgað. 

Þetta segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri í samtali við mbl.is

„Við höfum á síðustu árum verið að sjá fjölgun vopna í umferð, sérstaklega hnífa. Lögregla hefur verið að handleggja hnífa við almennt umferðareftirlit,“ segir Sigríður.

„Við höfum ekki endilega verið að sjá fjölgun tilvika þar sem vopni er beitt en eins og síðustu dagar hafa borið með sér þá er núna breyting á því. Menn virðast vera tilbúnir að beita vopnunum.“

300 vopnaútköll í fyrra

Enn fremur segir Sigríður að sérsveit lögreglunnar fari nú í fleiri vopnaútköll en áður.

Útköllin voru í kringum 200 á ári fram til ársins 2020 en þá urðu þau í kringum 300 á ári. Svipaður fjöldi útkalla var árið 2021. Hún segir fjölgun útkalla þó aðallega vera vegna stunguvopna en útköll vegna skotvopna voru áður milli 50-65 en urðu alls 87 í fyrra.

„Lögreglan fylgist vel með þessum málum, sérstaklega í ljósi þróunar mála í kringum okkur. Þau virðast þó tengjast ákveðnu uppgjöri eða átökum en beinast ekki að almennum borgurum,“ segir Sigríður.

Ekki endilega skipulögð brotastarfssemi

Um miðnætti í gær var skotið á karl­mann ut­an­dyra á Ing­ólfs­stræti í miðbæn­um. Þá var skotárás gerð á karl og konu í Grafar­holti aðfaranótt fimmtudags og særðist fólkið nokkuð illa í árás­inni.

Sigríður segir að málin þurfi ekki endilega að vera tengd skipulagðri brotastarfsemi.

„Þetta þarf ekki allt að vera skipulögð brotsatarfsemi, þetta geta líka verið einstaklingar sem eiga eitthvað sökótt hver við annan.“

Fjölga vopnfærum lögreglumönnum 

Sérsveit lögreglunnar sér um vopnaútköll en þó er hægt að vopna almenna lögreglumenn. Sigríður segir að lögreglan hafi að undanförnu verið að fjölga vopnfærum lögreglumönnum með því að auka þjálfun þeirra en þó sé ekki til skoðunar að almennir lögreglumenn verði vopnaðir alla daga ársins. 

Þá segir Sigríður að þessi mál verði þó tekin til umræðu á næsta fundi lögregluráðs, en það var ákveðið fyrir atburði síðustu viku.

Hún segir einnig mikilvægt að fjölga menntuðum lögreglumönnum.

„Það þarf að fjölga menntuðum lögreglumönnum en dómsmálaráðherra hefur einmitt sett inn fjármagn til þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert