Börn látin bíða svo mánuðum skiptir

Alls voru 77 börn sem biðu eftir því að komast …
Alls voru 77 börn sem biðu eftir því að komast inn á göngudeild A og B á barna- og unglingageðdeild LSH í desember sl. og var meðalbiðtíminn 7,7 mánuðir. mbl.is/Hari

Umboðsmaður barna hefur nú birt yfirlit yfir þann fjölda barna sem bíða eftir margvíslegri þjónustu í samvinnu við ýmsa aðila. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umboðsmanni barna.

Upplýsingarnar uppfærðar á sex mánaða fresti

Umboðsmaður barna starfar samkvæmt lögum um umboðsmann barna nr. 83/1994 og hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi barna. Breytingar á þeim lögum voru samþykktar árið 2018 og fela í sér að ný verkefni embættisins voru lögfest. Þar var umboðsmanni barna meðal annars falið að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni í samvinnu við ýmsa aðila.

Hluti af þeirri vinnu er að gera aðgengilegar á einum stað upplýsingar um fjölda barna sem bíða eftir tiltekinni þjónustu hverju sinni. Upplýsingarnar verða síðan uppfærðar á sex mánaða fresti til að fylgjast með þróuninni. Um fyrstu skref verkefnisins er að ræða en til greina kemur að þróa það frekar, svo sem með því að kallað verði eftir upplýsingum frá fleiri aðilum sem þjónusta börn.

Of mörg börn þurfi að bíða í of langan tíma

Samkvæmt yfirlitinu sem aðgengilegt er á vef Umboðsmanns barna voru sem dæmi sjö börn sem biðu eftir því að komast á meðferðardeild Stuðla í desember síðastliðnum og var meðalbiðtíminn þá rúmir 49 dagar. Þá voru einnig 13 börn á biðlista eftir að komast í MST meðferð en MST er meðferðarúrræði á vegum Barna- og fjölskyldustofu fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12-18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda. Meðalbiðtími í úrræðið var 76 dagar sl. desember.

Á sama tíma voru alls 738 börn á aldrinum 6-18 ára sem biðu eftir greiningu hjá Þroska- og hegðunarstöð en þar mældist meðalbiðtíminn vera 12-14 mánuðir í desember sl. Í þeim mánuði höfðu alls 544 börn beðið lengur en þrjá mánuði eftir greiningu. Þá voru alls 77 börn sem biðu eftir því að komast inn á göngudeild A og B á barna- og unglingageðdeild LSH og var meðalbiðtíminn 7,7 mánuðir. Fjöldi þeirra barna sem hafði beðið lengur en þrjá mánuði var 59. Alls biðu 39 börn eftir þjónustu hjá Transteymi BUGL og var meðalbiðtími tæpir átta mánuðir. Fjöldi þeirra barna sem höfðu beðið lengur en þrjá mánuði eftir þjónustu var 27.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka