Tilkynnt var um líkamsárás í Breiðholtinu klukkan hálf átta í gærkvöldi en sá sem varð fyrir árásinni var fluttur á bráðamóttöku til aðhlynningar.
Er það ein af fjórum líkamsárásum sem lögreglu var tilkynnt um í gær og nótt, að því er fram kemur í tilkynningu.
Klukkan hálf sex í gær kom maður á lögreglustöðina við Hverfisgötu sem sagðist hafa orðið fyrir líkamsárás.
Rúmlega ellefu í gærkvöldi óskaði maður eftir aðstoð lögreglu eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás og hótunum stuttu áður. Hálftíma síðar var tilkynnt um fjórðu líkamsárásina, í póstnúmeri 105, en þá var gerandi á vettvangi og vistaður í fangageymslu.