Flókið að fá Covid-sýkt starfsfólk til vinnu

Forstjóri Landspítala Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir.
Forstjóri Landspítala Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon
Forstjóri Landspítala segir mönnunarvanda á LSH langt umfram það sem stofnunin ráði við. Ekki þykir þó tilefni til að kalla starfsmenn úr einangrun í vinnu þar sem erfitt er að tryggja að smit berist ekki í sjúklinga. Er það á ábyrgð spítalans að forða sjúklingum frá smiti og því þurfi m.a. mikinn mannafla við að einangra þá sem hafa greinst jákvæðir.

Hún segir mikilvægt að ákvarðanir um afléttingar séu teknar á skynsaman og varfærinn hátt. 

Alls voru 302 starfsmenn Landspítala í einangrun í morgun. Mun það vera hæsti fjöldi starfsmanna sem er frá vegna Covid-sýkingar frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst.

302 starfsmenn voru frá í dag vegna Covid-sýkingar.
302 starfsmenn voru frá í dag vegna Covid-sýkingar. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Landspítali starfar nú á hættustigi en hann var tekinn af neyðarstigi í byrjun mánaðar. Að sögn Guðlaugar Rakelar Guðjónsdóttur, forstjóra Landspítala, hefur ekki enn verið talin þörf á því að hækka viðbúnaðarstigið á ný en ef ástandið versnar til muna gæti þurft að grípa til þeirrar ráðstöfunar. Er staðan metin á hverjum degi.

Hún segir góðar fréttir að innlagnir á gjörgæsluna vegna Covid-19 hafi verið stöðugar í nokkurn tíma en í morgun lágu þar tveir, þar af einn í öndunarvél. Aftur á móti sé áhyggjuefni hversu dreifð smitin eru innan veggja spítalans, liggja meðal annars Covid-sýktir sjúklingar á Vífilsstöðum, meltingardeild Landspítala, taugadeild og á hjarta- og lungnaskurðdeild. 

„Við reynum að sameina sjúklinga á sömu deildirnar en engu að síður þá er þetta flókið, af því að þetta er orðið svo dreift.“

Viðbúin staða

Að sögn Guðlaugar kemur þessi gífurlegi fjöldi starfsmanna sem sætir nú einangrun ekki á óvart en búist var við þessari þróun samhliða auknum afléttingum. Ekki er vitað til þess að starfsmenni hafi smitast af sjúklingum.

„Myndin er að teiknast upp sem við reiknuðum með. Miðað við aukinn fjölda smita að þá yrði aukin dreifing innan spítalans og fleiri starfsmenn sýkjast. Þetta virðist bara vera að ganga eftir.“ 

Hún segir mjög flókið að láta starfsemina ganga upp með þessum hætti og er spítalinn „algjörlega kominn fram yfir það sem hann ræður við varðandi mönnun.“

Leitað hafi verið í bakvarðasveitina en það dugi ekki til í ljósi þess hve margir eru fjarverandi. Þá hafa starfsmenn sem sæta sóttkví og smitgát verið fengnir til vinnu undir ákveðnum kringumstæðum. „Það er algjörlega búið að bjarga okkur.“

Ábyrgð spítalans að vernda sjúklinga

Spítalinn hefur hingað til ekki gripið til þess ráðs að fá Covid-sýkta starfsmenn í vinnu en verið er að skoða þann möguleika í samráði við sóttvarnalækni. Guðlaug segir það þó flókið í útfærslu og að erfitt geti reynst að tryggja að smit berist ekki í sjúklingana. Segir hún það á ábyrgð spítalans að forða sjúklingum frá smiti og að ekki sé hægt að hleypa veirunni lausri vísvitandi innan stofnunarinnar. 

„Fólk er ónæmisbælt og með undirliggjandi sjúkldóma sem liggja inni á spítalanum eðli málsins samkvæmt. Við þurfum að vernda þá. Þess vegna erum við að einangra alla og gera þetta eins og þetta er. Þess vegna er þetta svona mannaflafrekt,“ segir Guðlaug.

„Það er heilmikil ákvörðun að ákveða það að starfsmenn komi inn með Covid.“

Spurð út í væntanlegar afléttingar segir hún mikilvægt að fara varlega.

„Aðalatriðið í öllum afléttingum er að þetta sé gert á skynsaman og varfærinn hátt. Að fólk noti grímur og passi nándarmörkin. Þetta er undir okkur sjálfum komið að fylgja sóttvörnum og rjúfa smitleiðir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert