Í varðhald eftir árás

Mennirnir tveir voru leiddir fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur og …
Mennirnir tveir voru leiddir fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur og úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. mbl.is/Óttar

Tveir karlmenn voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi. Var farið fram á varðhald í þágu rannsóknar lögreglu á skotárás sem átti sér stað við Ingólfsstræti í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt sunnudags.

Annar mannanna var úrskurðaður í varðhald til 11. mars en hinn til 21. febrúar. Þriðji maðurinn sem var handtekinn í tengslum við málið er laus úr haldi lögreglu.

Mennirnir þrír eru fæddir á árunum 2002 og 2003 og þar með er enginn þeirra eldri en tvítugur.

Allir Íslendingar

Sá sem varð fyrir árásinni tilkynnti lögreglu hana sjálfur um klukkan eitt eftir miðnætti. Í kjölfarið var hann fluttur á slysadeild og gekkst þar undir aðgerð. Hann er ekki talinn í lífshættu.

Mikill viðbúnaður var vegna málsins en mennirnir þrír, sem allir eru Íslendingar, voru handteknir fljótlega eftir að rannsóknin hófst. Lagt hefur verið hald á skotvopn og bifreið. Við aðgerðirnar naut lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra.

Ekki liggur fyrir hvort skotárásin tengist skotárásinni í Grafarholti þar sem karl og kona voru skotin.

Sú árás átti sér stað aðfaranótt fimmtudags. Voru tveir karlmenn á þrítugsaldri úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald. Þá var einnig lagt hald á ökutæki og skotvopn eftir árásina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert