Jarðskjálfti af stærðinni 3,0 varð 2,5 kílómetrum norður af Grindavík rétt fyrir klukkan hálf sex í kvöld en hann fannst vel í Grindavík.
Var þetta fjórði skjálftinn af stærðinni einn eða stærri sem orðið hefur í grennd við í Grindavík í dag og jafnframt sá stærsti til þessa. Samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofu hafa nokkrir eftirskjálftar fylgt.
Snörp jarðskjálftahrina gekk yfir Reykjanesið í lok janúar en 31. janúar síðastliðinn mældust þrír skjálftar yfir stærðinni þremur um 5,2 kílómetrum frá Grindavík eða einn af stærðinni 3,4, annar af stærðinni 4,0 og sá þriðji af stærðinni 4,3.
Minnst sjö eftirskjálftar yfir stærð 1 urðu eftir þá skjálfta, þar af tveir yfir 2 að stærð.
Tugir eftirskjálftar urðu eftir stærsta skjálftann, 4,3, sem reið yfir klukkan 22:23 þennan dag, þar af voru a.m.k. fjórir yfir 2 af stærð.