Snýst um einstaklinga en ekki skipulagða starfsemi

Mennirnir tveir sem eru grunaðir um skotárásina í miðbænum hafa …
Mennirnir tveir sem eru grunaðir um skotárásina í miðbænum hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. mbl.is/Óttar

Lögreglan telur það vera út úr myndinni að skotárásirnar við Ingólfsstræti í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt sunnudags og í Grafarholti aðfaranótt föstudags tengist skipulagðri brotastarfsemi.

„Við teljum að þetta tengist einhverjum einstaklingum. Við erum líka að skoða hvort það eru tengingar á milli þessara mála,“ segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, og bætir við að verið sé að athuga með ástæður árásanna og tengsl árásarmanna og fórnarlamba.

Spurður segist hann ekki hafa upplýsingar um hvort mennirnir sem voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna árásarinnar í miðbænum hafi áður komið við sögu lögreglunnar. Hann vill heldur ekki tjá sig um það hvort játning liggi fyrir.

Yfirheyrslur eru í gangi ásamt gagnaöflun. Meðal annars hefur verið rætt við vitni, auk þess sem lögreglan hefur viðað að sér efni úr eftirlitsmyndavélum.

Ástand mannsins sem var skotinn í miðbæ Reykjavíkur er stöðugt og er hann ekki lífshættu, að sögn Margeirs. Fólkið sem var skotið í Grafarvogi er heldur ekki í lífshættu og mun það vera á batavegi.

Hríðskotabyssa ekki notuð

Margeir útilokar að hríðskotabyssa eða afsöguð haglabyssa hafi verið notuð við árásina í miðbænum og sömu sögu megi segja um hina árásina. Spurður segir hann eitthvað vera um hríðskotabyssur hérlendis. Þær séu aftur á móti í eigu safnara og lögreglan hafi ekki séð slíkar byssur í umferð.

„Þetta tekur allt sinn tíma. Miðað við þann tíma sem við gefum okkur í þetta miðar rannsókninni vel,“ segir hann og á þar við bæði málin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert