Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir það skipta sköpum fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu að takmarkanir á landamærum verði felldar úr gildi. Staða þeirra sé mjög slæm.
„Við göngum út frá því að þetta verði fellt niður þegar reglugerðin sem nú er fellur úr gildi og minnum á að það væri óskynsamlegt í alla staði að gera það ekki,“ segir Bjarnheiður.
„Við erum svolítið svekkt að það hafi ekki verið gert nú þegar. Við erum eitt af fáum ríkjum í Evrópu sem eru með einhverjar hömlur á bólusett fólk.“
Talið sé að sýnatakan sem krafist er áður en ferðamenn komi til landsins hafi hamlandi áhrif. Rannsóknir og kannanir bendi til þess. „Þegar fólk þarf að velja á milli, þá velur það að fara þangað þar sem er ekkert vesen,“ segir Bjarnheiður. Þær hömlur sem settar séu óbólusettum skipti minna máli, þeir hafi lítið ferðast hvort sem er.
„Alþjóðaheilbrigðisstofnunin er búin að gefa út að þetta hafi enga þýðingu lengur og það sé jafnvel hættulegt að vera enn þá með þessar takmarkanir, vegna þess að það séu svo margar þjóðir sem eiga svo mikið undir því að ferðaþjónustan komist í gang aftur, sumar miklu meira en við. Það sé lýðheilsumál líka.“
Ferðaþjónustufyrirtækin hafa farið mjög misilla út úr takmörkunum stjórnvalda, eftir því hvers konar fyrirtæki er um að ræða. Þau fyrirtæki sem hafa átt möguleika á viðskiptum á innanlandsmarkaði koma skást út úr faraldrinum. Bjarnheiður nefnir sem dæmi bílaleigur sem hafi getað selt bíla og leigt þá út í langtímaleigu. Veitingahúsum hafi vegnað misvel enda séu þau misháð erlenda markaðnum. Gististaðir á höfuðborgarsvæðinu hafi farið sérstaklega illa út úr faraldrinum auk þeirra fyrirtækja sem skipuleggja ferðir fyrir erlenda ferðamenn.
„Þetta er ekki búið þótt faraldrinum ljúki og ferðamenn fari að koma aftur. Nú eru fyrirtækin löskuð og eiga ekki upp á mikið að hlaupa. Mörg eru búin að safna skuldum. Það tapaðist gríðarlega mikið eigið fé út úr greininni meðan á faraldrinum stóð.“
Bjarnheiður er vongóð um að sumarið verði gott. „Það hefur aldrei litið jafn vel út og við göngum út frá því þar til annað kemur í ljós. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að fá mjög gott sumar núna.“