Íslenskir rithöfundar skipa tvö efstu sætin á lista yfir mest seldu glæpasögur vikunnar í Frakklandi. Mistur eftir Ragnar Jónasson er mest selda glæpasaga vikunnar og Þagnarmúr eftir Arnald Indriðason er í öðru sæti. Þetta er önnur vikan í röð sem Mistur er á toppnum en í síðustu viku var Þagnarmúr Arnaldar í sjöunda sæti. Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Bjarti & Veröld, segir þetta líklega vera í fyrsta sinn sem tveir íslenskir höfundar raða sér í efstu sæti metsölulista erlendis.
Ragnar á fleiri bækur á þessum lista yfir hundrað mest seldu glæpasögur Frakklands í þessari viku. Þorpið er í tólfta sæti og Vetrarmein og Dimma lauma sér svo inn á listann í lokin, í 72. og 87. sæti. Hann á því fjórar bækur á meðal þeirra vinsælustu í Frakklandi þessa dagana.
„Ef maður miðar við allan þann fjölda glæpasagna sem kemur út í heiminum, og í Frakklandi, þá er það alveg magnað að tveir íslenskir höfundar séu þarna númer eitt og tvö. Og að Ragnar sé með fjórar þarna á topp-hundrað-listanum segir líka sína sögu,“ segir Pétur.
„Arnaldur hefur verið alveg gríðarlega stór í Frakklandi og nú er Ragnar kominn þangað líka. Það segir bara hvað íslenskir glæpasagnahöfundar hafa náð langt og bera hróður Íslands víða.“