Allt of hátt hlutfall ófaglærðra lögreglumanna er við störf í útkallsliði lögreglu sem hafa hvorki heimild né hafa öðlast þjálfun til að nota öll þau tæki sem lögregla býr yfir. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórn Landssambands lögreglumanna í ljósi liðinna atburða. Stjórnin lýsir yfir þungum áhyggjum af öryggi lögreglumanna.
„Hluti af útkallsliði lögreglu eru nemar sem eru skemur á veg komnir í almennri þjálfun lögreglumanna. Hafa verður í huga að almennir lögreglumenn, héraðslögreglumenn og afleysingamenn eru oftast fyrsta viðbragð í útkalli á vettvang. Ótti um eigið öryggi er verulegur og þessi störf sem áður þóttu spennandi í almennri löggæslu þykja nú lítt eftirsóknarverð sökum hættueiginleika og starfsálags ásamt því sem laun eru í engu samræmi við ábyrgð og álag í starfi,“ segir í yfirlýsingunni.
Fram kemur að í ljósi atburða síðustu daga, vikna og jafnvel ára sé brýn nauðsyn á að skipuleggja til framtíðar fjölgun lögreglumanna og hvernig sé best að viðhalda þeim fjölda, þekkingu og reynslu innan hinna ýmsu deilda lögreglunnar og þá sérstaklega í almennri löggæslu, enda séu það lögreglumennirnir sem komi iðulega fyrstir að öllum málum.
„Þá teljum við að sú umræða sem hefur verið í fjölmiðlum um rafvarnarbúnað sem búnað í almennri löggæslu tengist ekki atburðum sl. daga en hins vegar þarf að skoða slíkan búnað gagngert til þess að tryggja öryggi lögreglumanna, en hafa ber í huga að til slíks búnaðar verður ekki gripið þegar skotvopnum er beitt,“ segir í yfirlýsingunni.
„Þá er enn fremur mikilvægt að ráðast í vinnu við greiningar á lagaumhverfi með það að markmiði að styrkja möguleika lögreglu til rannsókna þannig að lögregla hér á landi sé ekki eftirbátur og hafi yfir að ráða sambærilegum heimildum og lögregla í nágrannaríkjum, og sé þannig betur í stakk búin til að bregðast við skipulagðri glæpastarfsemi. Með öllu er óviðunandi að Ísland búi ekki yfir sambærilegum heimildum, t.d. til gagna- og upplýsingaskipta og nágrannalöndin, og hætta er á að Ísland sitji eftir í réttarþróun sem veikur hlekkur meðal ríkja í baráttu gegn skipulagðri brotastarfsemi, gegn netglæpum og annarri brotastarfsemi sem þrífst þvert á landamæri.“