Dreifa ofbeldismyndböndum á TikTok og Instagram

Oddur segir börnin meðal annars dreifa myndböndunum á TikTok.
Oddur segir börnin meðal annars dreifa myndböndunum á TikTok. AFP

Myndskeið af ofbeldi milli barna á grunnskólaaldri koma á borð lögreglunnar í bylgjum. Börnin boða til átaka og deila síðan myndböndum af þeim á samfélagsmiðlum.

„Þessi hegðun er búin að vera þekkt um land allt í um tvö til þrjú ár, en þetta kemur í bylgjum,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

Í gær var greint frá því að lög­regl­an væri nú í nánu sam­starfi við barna­vernd Árborg­ar vegna mynd­skeiða sem fund­ust. Þau sýna of­beldi barna hvert gegn öðru á Sel­fossi.

Oddur vildi ekki tjá sig um umrætt atvik þar sem um er að ræða barnaverndarmál.

Getur fylgt börnunum út lífið

Oddur segir börnin oftast dreifa myndböndunum á samfélagsmiðlunum TikTok eða Instagram, en jafnframt sé þekkt að þeim sé hlaðið inn á síður á netinu sem ganga svo á milli barnanna. Hann hvetur foreldra til að vera meðvitaða um símanotkun barna sinna. 

„Oftast er þetta aldurshópurinn 13-16 ára. Þá förum við í þetta með barnaverndaryfirvöldum á viðkomandi stað til að ná utan um þetta en svo hvetjum við foreldra til að vera mjög meðvitaða um hvað er að gerast í þessum rafræna heimi sem börnin þeirra eru að alast upp í.“

Spurður hvort börnin séu oft í sama skólanum og þekkist vel segir Oddur það ekki endilega þurfa að vera.

Oddur hvetur foreldra til að fylgjast með símanotkun barna sinna.
Oddur hvetur foreldra til að fylgjast með símanotkun barna sinna. mbl.is/Sigurður Bogi

Börn sem hafa náð 15 ára aldri eru samkvæmt lögum sakhæf. Því segir Oddur að þau börn sem hafa náð sakhæfisaldri og taka þátt í að beita ofbeldi sem þessu geti átt von á því að það fylgi þeim út lífið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert