Alþýðusamband Íslands (ASÍ) telur að reglugerðarheimild í stjórnarfrumvarpi til laga um loftferðir kunni að vera andstæð stjórnskipun íslenska ríkisins og veiti flugliðum ófullnægjandi vernd.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umsögn ASÍ um endurflutt frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra til laga um loftferðir sem lagt hefur verið fram. Frumvarpið var fyrst lagt fram á þingi í marsmánuði 2020.
Í umsögninni er vakin athygli á að ætlunin sé að veita ráðherra heimild með einfaldri reglugerð til að marka það svæði sem íslensk lög og kjarasamningar taka til. Heimildin sé mjög víðtæk og óskýr.
ASÍ gerir jafnframt athugasemd við að samkvæmt frumvarpinu geti ráðherra heimilað flugrekanda að stunda flug frá og til Íslands, þ.m.t. áætlunarflug með áhafnir sem eiga heimahöfn á Íslandi og eru búsettar hér landi en sem gert er að taka laun skv. erlendum kjarasamningum eða ekki skv. neinum kjarasamningum.
Bendir ASÍ á að jafnframt verði þá hægt að skrá heimahöfn erlendra flugverja hér á landi og greiða þeim laun skv. kjarasamningum í þeim ríkjum þar sem flugrekandi hefur aðalstöðvar sínar.
Krefst ASÍ þess að gerðar verði breytingar á frumvarpinu til að koma í veg fyrir enn frekari félagsleg undirboð í flugrekstri hér á landi, segir í tilkynningu ASÍ.