Akstursíþróttafélagið Start áformar að gera framtíðar æfinga- og keppnissvæði í Skagfelli í Eyvindarárdal, við vegamót Mjóafjarðarvegar og þjóðvegarins um Fagradal. Sveitarfélagið Múlaþing hefur tekið svæðið á leigu hjá ríkinu og auglýst breytingar á aðalskipulagi. Skipulagsstofnun hefur ákveðið að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Mikill áhugi er fyrir akstursíþróttum á Austurlandi. 90 félagsmenn eru í aksturíþróttafélaginu Start og að auki 30 ungmenni. Ekkert skipulagt svæði er fyrir mótorsport á Fljótsdalshéraði og veldur það ónæði fyrir íbúa og slysahættu, að því er fram kemur í tilkynningu félagsins til Skipulagsstofnunar.
Gert er ráð fyrir að lögð verði um tveggja kílómetra löng mótorkrossbraut, 6-8 metra breið, með moldar- og sandköflum, og um hálfs kílómetra moldarbraut fyrir börn. Fjallahjólabrautir verða um sex kílómetra langar og þar verða notaðar kindagötur en smá lagfæringar gerðar. Enduro-brautir verða alls um 12 kílómetrar að lengd og verða lagðar á svipaðan hátt og fjallahjólabrautirnar. Jafnframt eru áform um að byggja aðstöðuhús og útbúa bílastæði.