Neyðarkallið sem barst seint í gærkvöldi af Vatnajökli kom frá Garmin Inreach neyðarsendi sem staðsettur var á sunnanverðum Vatnajökli. Samkvæmt ferðaáætlun og því sem aðgerðastjórn Landsbjargar kemst næst er um tvo einstaklinga að ræða sem eru vanir fjallamenn. Þetta segir Karen Lárusdóttir, verkefnastjóri aðgerðamála hjá Landsbjörgu, í samtali við mbl.is.
Samtals um fimmtíu björgunarsveitarmenn frá níu björgunarsveitum eru nú á leið á jökulinn vegna neyðarkallsins, en aðstæður á jöklinum eru afar slæmar, hvasst og mikil snjókoma og þar með blint. Karen segir að skyggni sé allt niður í þrjá metra á jöklinum.
Fyrstu björgunarsveitarmenn fóru af stað frá Austurlandi á milli 3 og 4 í nótt og fóru strax að sækja á jökulinn úr austur átt. Stuttu síðar var snjóbíll frá höfuðborgarsvæðinu og frá Björgunarfélagi Árborgar ræstir út auk annarra björgunarsveita. Eru þeir á leið upp Breiðamerkurjökul.
Karen segir að nú sé rannsóknarvinna og gagnaöflun í gangi, en björgunarsveitir stefni á þann punkt þaðan sem neyðarkallið kom. Hún staðfestir að neyðarkallið hafi komið af Vatnajökli sjálfum sunnanverðum, en ekki t.d. frá þeim fjölmörgu jöklum sem ganga út frá Vatnajökli. Er um að ræða svæðið norðan af Öræfajökli. Samkvæmt upplýsingum mbl.is er um að ræða tvo ferðamenn, en ekki var hægt að fá staðfest frá Landsbjörgu að svo stöddu hvort um væri að ræða Íslendinga eða erlenda ferðamenn.