Embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, sem boðað hefur fjóra blaðamenn í yfirheyrslu fyrir meint brot á lögum um friðhelgi einkalífsins í umfjöllunum sínum, segir málið í hefðbundnum farvegi.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra sendi frá sér fyrr í dag.
Eins og mbl.is greindi frá í gær hefur Lögreglan á Norðurlandi eystra, sem hefur aðsetur á Akureyri, boðað fjóra blaðamenn í yfirheyrslu fyrir meint brot á lögum um friðhelgi einkalífsins í umfjöllunum sínum um aðferðir „skæruliðadeildar Samherja“ gegn blaðamönnum.
Í yfirlýsingu embætti Lögreglustjórans segir að embættið sé með brot gegn friðhelgi einkalífs til rannsóknar og að málið sé í hefðbundnum farvegi.
Þá segir að liður í rannsóknum sakamála er að fram fari skýrslatökur af aðilum og vitnum í því skyni að upplýsa mál.
Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að vegna rannsóknarhagsmuna muni embættið ekki veita frekari upplýsingar um málið.