Félag fréttamanna, sem er fag- og stéttarfélaga fréttamanna hjá Ríkisútvarpinu, hefur lýst yfir stuðningi við fjóra blaðamenn sem lögreglan á Norðurlandi eystra hefur boðað í yfirheyrslu fyrir meint brot á lögum um friðhelgi einkalífsins í umfjöllunum sínum um aðferðir „skæruliðadeildar Samherja“ gegn blaðamönnum. Hafa blaðamennirnir jafnframt fengið stöðu sakborninga í málinu.
Í tilkynningu frá félaginu lýsir það yfir áhyggjum og undrun á þessum aðgerðum lögreglunnar og er bent á að dómar Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu hafi staðfest rétt íslenskra blaðamanna til að vinna fréttir úr gögnum sem þeim berast, eigi þau erindi við almannahagsmuni. Þá beri blaðamönnum ótvíræð lagaleg skylda til að vernda heimildarmenn sína.
Í gær var greint frá því að minnsta kosti fjórir blaðamenn, þau Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kveiks á Ríkisútvarpinu, Aðalsteini Kjartanssyni, blaðamanni á Stundinni, Arnari Þór Ingólfssyni, blaðamanni Kjarnans, og Þórði Snæ Júlíussyni, ritstjóra Kjarnans, hefðu verið boðuð í yfirheyrslu vegna málsins.
Segir í tilkynningu Félags fréttamanna að blaða- og fréttamenn víða um heim búi við síauknar ógnanir og ofsóknir, bæði af völdum stjórnvalda, skipulagðra glæpasamtaka og stórfyrirtækja. Þá er bent á að Ísland hafi á undanförnum árum fallið niður lista samtakanna Reporters Without Borders vegna bágrar stöðu fjölmiðla hér, nú síðast niður í 16. sæti „meðal annars vegna þess að Samherji „skipulagði herferð árið 2020 til að varpa rýrð á blaðamenn sem fjallað höfðu um fréttamálið (um athæfi fyrirtækisins í Namibíu)“.“ segir í tilkynningunni.