Neyðarúrræði að kalla fólk úr einangrun

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Raunhæft er að koma í veg fyrir að Covid-sýktir starfsmenn Landspítala beri smit í sjúklinga komi til þess að þeir verði kallaðir til vinnu en því fylgir ávallt áhætta. Mikilvægt er að fylgja þeim leiðbeiningum sem gefnar verða en um algjört neyðarúrræði er að ræða.

Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, spurður út í mögulegar fyrirætlanir um að heimila Covid-sýktum starfsmönnum að mæta til vinnu á heilbrigðisstofnanir.

313 starfsmenn Landspítala voru í einangrun í morgun. Aldrei áður hafa jafn margir starfsmenn stofnunarinnar sætt einangrun á sama tíma. 

Til að stemma stigu við mönnunarvanda Landspítalans, sem hefur stigmagnast á tímum Covid-19, var gripið til þess ráðs fyrr í faraldrinum að kalla heilbrigðisstarfsfólk sem sætti sóttkví, til vinnu á spítalann. Gat það starfað þar undir svokallaðri sóttkví B.

Hingað til hefur þó heilbrigðisstarfsfólk í einangrun ekki verið kallað til vinnu en það er nú til skoðunar í ljósi stöðunnar.

Ekki einhliða ákvörðun vinnuveitenda

„Ef að þannig neyðarástand skapast að það er ekki til mannskapur til að sinna starfseminni þá þurfum við að grípa til þess ráðs,“ segir Þórólfur, spurður út í þetta úrræði sem mun mögulega standa bæði heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum til boða í ljósi mönnunarvanda.

„En þetta er neyðarúrræði, algjört. Auðvitað vill maður helst ekki að fólk sem er smitað sé að vinna og umgangast sjúkt fólk en það er hægt að gera það með ákveðnum formerkjum og ákveðnum leiðbeiningum.“

Hann segir frumskilyrði að þeir sem yrðu fengnir aftur til vinnu séu ekki veikir og yrði starfsfólkið sjálft að treysta sér til að koma.

„Þetta er ekki eitthvað sem vinnuveitendur geta ákveðið einhliða – að kalla fólk í vinnu.“

Framkvæmanlegt úrræði

Í samtali við mbl.is í gær sagði Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítala, að það gæti reynst flókið verkefni að koma í veg fyrir að Covid-sýktir starfsmenn beri smit í sjúklinga ef þeir yrðu fengnir til vinnu. Hún sagði það hlutverk stofnunarinnar að vernda sjúklinga gegn slíku, sem eru oft í viðkvæmri stöðu eðli málsins samkvæmt.

Spurður hvort honum þyki þetta úrræði framkvæmanlegt, svarar Þórólfur því játandi.

„Auðvitað er alltaf einhver áhætta en hún er kannski ekki mjög mikil ef menn fara eftir þeim reglum sem eru settar,“ segir Þórólfur og ítrekar enn og aftur að um neyðarúrræði sé að ræða.

„Afleiðingarnar af því að hafa ekki mannskap sem þarf að sinna þessu fólki eru líka mjög miklar þannig það þarf að vega það og meta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert