Snjórinn bauð bílaflota borgarbúa birginn

Flest útköll björgunarsveitanna voru vegna bíla sem festust í snjónum …
Flest útköll björgunarsveitanna voru vegna bíla sem festust í snjónum og ekkert annað að gera en moka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgunarsveitirnar sinntu 214 útköllum í gær, einkum vegna fastra bíla. Vel tókst að leysa verkefnin, sem flest voru í efri byggðum, en 120 manns tóku þátt í aðgerðunum.

Snjómokstursmenn á vegum Reykjavíkurborgar höfðu ekki undan að reyna að halda götum borgarinnar opnum þegar snjónum kyngdi niður. Hjalti J. Guðmundsson, skrifstofustjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, telur líklegt að einhverjar húsagötur verði ekki færar fyrr en seinna í dag eða jafnvel á morgun. Mokstur byrjaði klukkan þrjú um nóttina og tókst að halda stofn- og tengibrautum að mestu opnum. „Þetta er alvöruvetur í fyrsta skipti í tvö til þrjú ár. Við erum með öll tæki og mannskap úti. Við reynum að vinna þetta eins vel og hratt og við getum.“

Mikið var um veglokanir og var fólk á illa útbúnum bílum beðið að halda sig heima. Vegirnir um Kjalarnes, Hellisheiði, Þrengsli og Mosfellsheiði lokuðust allir vegna veðurs og eru á óvissustigi til klukkan átta í dag. Fylgdarakstur fór fram frá Esjumelum að Hvalfjarðargöngum og til baka á meðan veður leyfði en það stóð stutt. Fjöldi fólks er því veðurtepptur enn í dag.

Þrátt fyrir vonskuveður varð minniháttar röskun á flugi íslensku flugfélaganna í gær. Þetta staðfesta Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, og Nadine Guðrún Yaghi, upplýsingafulltrúi Play.

Útlit er fyrir þokkalegt veður í dag þótt færðin verði til trafala fyrst um sinn.

25 sentimetra djúpur

Mörgum þótti mikið til snjósins koma í gær sem hindraði ferðir fólks ýmist beint eða óbeint. Athuganir Veðurstofu Íslands sýndu fram á að snjódýptin hefði náð 25 sentimetrum í Reykjavík klukkan átta um morguninn. Frá þeim tímapunkti hélt þó áfram að snjóa svo búast má við að sú tala gefi nokkuð hógværa mynd. Önnur snjómælingin fer fram klukkan átta í dag. 25 sentimetra snjór er mikið á reykvískan mælikvarða en það eru þó ekki nema fimm ár síðan snjórinn náði 51 sentimetra dýpt. Árið 2015 mældist mesta snjódýptin 44 sentimetrar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert