Einar Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, segir það hafa verið lán í óláni að verktakar sem sáu um snjómokstur hafi verið á vettvangi í dag þegar barn féll ofan í sprungu.
Hann segir í samtali við mbl.is að verktakarnir hafi verið með snjómokstursgröfu rétt hjá og notað hana til þess að koma barninu til aðstoðar, ásamt því að vera með kaðla og bönd. Því hafi verið hægt að bregðast mjög hratt við aðstæðum.
Að sögn Einars var barnið með erlendum ferðamönnum sem höfðu verið að labba göngustíginn, þegar það hljóp frá þeim og tók beina stefnu upp á hakið.
Einar segir sprunguna sem barnið féll ofan í vera að öllu jöfnu sýnilega en vegna mikillar snjókomu undanfarna daga hafi hún varla sést.
„Þarna er sprunga sem að er að öllu jöfnu sýnileg, þetta er mjög breið og mikil sprunga en það hefur bara snjóað svo svakalega mikið undanfarna daga að það hefur varla ráðist við að moka snjó og sinna öllum snjómokstri.
Þarna hefur skafið yfir, sem að gerist nú ekki oft, en þessi sprunga bara hverfur,“ segir Einar.
Hann segir að jafnframt verði farið í að rýna í atvikið og athugað hvort hægt verði að draga einhvern lærdóm af því.
„Það eru viðvörunarskilti þarna rétt hjá en þau voru hálfpartinn á kafi í öllum snjónum. Skilti eru bara skilti og við vitum það alveg að þau segja bara ákveðna sögu og svo gerast hlutir.“
Einar segir alla ákaflega þakkláta og glaða að allt hafi farið svo vel. Eftir því sem mbl.is kemst næst, virðist barnið vera við góða heilsu.