Telur lögreglu vilja upplýsingar um heimildarmenn

Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans
Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans mbl.is/Hari

Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans segir umfjöllun um „skæruliðadeild“ Samherja hafa átt skýrt erindi við almenning og því ættu blaðamenn að vera verndaðir með lögum. Hann furðar sig jafnframt á því hvað lögregla ætli sér að yfirheyra fréttamennina um, ef ekki til að fá upplýsingar um heimildaöflun eða heimildarmenn þeirra. Eiga þeir að vera verndaðir með lögum.

„Okkur er gefið að sök að hafa nýtt gögn til að skrifa fréttir. Ef að það er glæpur þá er íslensk blaðamennska í verulegum vandræðum,“ segir Þórður í samtali við mbl.is.

Hann segir þetta senda afleit skilaboð til blaðamanna í landinu sem nýta oft trúnaðargögn við fréttaskrif sem fengin eru með ýmsum hætti. Eru gögnin oft þess eðlis að þeir sem málið varða eru mótfallnir því að upplýsingarnar berist til almennings.

„Þannig opinberast flest mál sem eru leidd til lyktar í gegnum fjölmiðla. Þetta er aðför að þeirri blaðamennsku.“

Samherji hafi reynt að hafa áhrif á formannskjör

Þórður er einn fjögurra fréttamanna sem hafa verið kallaðir til yfirheyrslu af lögreglunni á Norðurlandi eystra vegna umfjöllunar Kjarnans og Stundarinnar um „skæruliðadeild“ Samherja á síðasta ári. Var þar m.a. fullyrt að Samherji hafi gert tilraunir til þess að hafa áhrif á formannskjör Blaðamannafélags Íslands.

Ekki liggur fyrir hvernig gögnin sem fréttaflutningurinn byggði á komust í hendur blaðamanna en um er að ræða samskiptagögn og gæti þetta því tal­ist brot á hegn­ing­ar­lög­um.

Umfjöllunin kom í kjölfar afhjúpunar Stundarinnar og Kveiks á Rúv á starfsemi útgerðarfélagsins Samherja í Namibíu og víðar.

Átti skýrt erindi við almenning

Að sögn Þórðar eru 228. og 229. gr. hegningarlaga um friðhelgi einkalífs, sem blaðamennirnir eru sakaðir um að hafa brotið gegn, skýr – ekki ætti að hamla störf fréttamanna þegar fréttaflutningur þeirra varðar almannahagsmuni. Var túlkun lagaákvæðisins m.a. styrkt í fyrra með lagabreytingum.

„Þá er erfitt að sjá hvaða spurninga lögreglumenn ætli að spyrja okkur blaðamenn í yfirheyrslu, aðrar en þær að fá það uppgefið hverjir okkar heimildarmenn séu eða hvernig við öfluðum heimilda,“ segir Þórður og bætir við að með því séu þeir að hvetja blaðamenn til að brjóta önnur lög í landinu, fjölmiðlalög, þar sem vernd heimildarmanna er tryggð.

„Þetta er svo mikil hringavitleysa, ég botna ekkert í þessu.“

Þú telur alveg skýrt að þessi fréttaflutningur hafi varðað almannahagsmuni?

„Við töldum skýrt að þetta ætti erindi við almenning. Viðbrögðin voru þau að helstu ráðamenn þjóðarinnar fordæmdu þetta athæfi. Ráðherrar í ríkisstjórn, þingmenn og allskonar samtök, innlend og erlend, gerðu slíkt hið sama. Á endanum baðst Samherji afsökunar í kjölfar þessarar umfjöllunar á hátterni sínu og sagði, og viðurkenndi, að þeir hefðu gengið of langt.“

„Ef þetta eru ekki almannahagsmunir í ljósi þess hver viðbrögðin voru þá veit ég ekki hvernig við eigum að skilgreina þá.“

Þá bendir hann jafnframt á að enginn hafi dregið í efa trúverðugleika fréttaflutningsins sem og sannleiksgildi gagnanna sem hann byggði á.

Furðar sig á sakborningum í rannsókninni

Þórður fékk símtal í gær um að hann þyrfti að mæta í yfirheyrslu lögreglu vegna málsins. Hann sagði það hafa komið mjög á óvart og átti hann alls ekki von á að þetta mál yrði rannsakað.

Aðspurður kveðst hann ekki vita til þess að fleiri séu með stöðu sakbornings en þeir sem fjölmiðlar hafa nú þegar fjallað um, sem auk Þórðar eru þau Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður á Kjarnanum, Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, og Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks. 

Hann telur þó umhugsunarvert hvers vegna Arnar Þór og Aðalsteinn hafi verið boðaðir í yfirheyrslu þar sem hvorugur þeirra er með ritstjórnarlega ábyrgð á sínum miðlum.

Að sama skapi furðar hann sig á því að Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks sé einnig í hópi þeirra í ljósi þess að það voru fyrst og fremst Kjarninn og Stundin sem greindu frá þessum gögnum. 

Enginn settur í stöðu sakbornings af léttúð

„Það lætur enginn einstakling í réttarríki hafa stöðu sakbornings af einhverri léttúð,“ segir Þórður og bætir við að til að gefa í skyn að einhver hafi framið lögbrot, sem sé það alvarlegt að við því liggi allt að eins árs fangelsisrefsing, sé eins gott að það sé gert að vel ígrunduðu máli. Segir hann þetta mjög alvarlegt.

„Þó ég sé búinn að starfa í þessum geira lengi og hef oft farið í gegnum allskonar storma þá finnst mér aldrei þægilegt að gera þetta og ég get ímyndað mér að þeir sem séu að ganga í gegnum þetta í fyrsta sinn, að þeir upplifi það mjög sterkt. Þetta getur verið mjög óþægilegt,“ segir Þórður að lokum.

Ekki náðist í Páleyju Borgþórsdóttur, lögreglustjóra á Norðurlandi eystra, vegna rannsóknarinnar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka