Þrívíddarprentaðar byssur bagaleg þróun

Erfitt er að fylgjast með þeim sem búa til byssurnar.
Erfitt er að fylgjast með þeim sem búa til byssurnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglunni hafa borist upplýsingar um að einstaklingar gætu verið að búa til þrívíddarprentaðar byssur hér á landi. Talið er að byssurnar geti verið jafn öflugar og venjuleg vopn.

„Við höfum fengið upplýsingar um að þetta gæti verið komið hingað til landsins. Að sjálfsögðu er þetta bagaleg þróun ef menn eru farnir að búa þetta til inni í herbergi hjá sér, verða sér síðan úti um skot og fara svo að hleypa af þeim hægri vinstri eða ögra fólki yfirhöfuð. Þetta geta verið mjög góðar eftirlíkingar af venjulegum  vopnum,“ segir Mar­geir Sveins­son, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá miðlægri rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar, í samtali við mbl.is.

Lögreglan hefur ekki viljað tjá sig um hvers konar byssa hafi verið notuð í skotárásinni um helgina en Stöð 2 staðhæfir að um hafi verið að ræða þrívíddarprentaða byssu.

Endast ekki lengi

Margeir segir að þrívíddarprentaðar byssur geti verið ansi öflugar en þær endist þó ekki í langan tíma.

„Þær eru eins öflugar og skotið sem er sett í þær er. Þær geta alveg verið jafn öflugar og byssur sem við köllum venjulegt vopn. Þetta eru samt ekki græjur sem endast í langan tíma.“

Spurður hvort lögreglan geti á einhvern hátt haft eftirlit með þeim sem séu að prenta byssurnar segir Margeir það afar erfitt.

„Ef viljinn og ásetningurinn er að gera eitthvað þá er ekkert sem stoppar viðkomandi þannig að fara af stað. Við höfum engar töfralausnir til að fylgjast með fólki. Við lútum ákveðnum reglum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert