Trúnaðarbrestur hafi orðið milli rektors og siðanefndar

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is

„Þetta er alrangt og ég vísa þessu alfarið á bug. Ég hef ekki haft nein afskipti af þessu máli og það er ekki á mínu borði,“ segir Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands í samtali við Morgunblaðið og staðfestir afsögn siðanefndar Háskóla Íslands vegna máls Bergsveins Birgissonar rithöfundar gegn dr. Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra.

Siðanefndin hefur sagt af sér eftir að Jón Atli greindi frá þeim skilningi að hún hefði enga lögsögu í málinu. Nefndin segir í yfirlýsingu, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, að trúnaðarbrestur hafi orðið milli sín og rektors, og að hann hafi lýst eigin skoðun á málavöxtum.

Jón Atli segir það alrangt.

„Hins vegar fékk ég fyrirspurn frá öðrum aðilanum, sem er í launalausu leyfi frá Háskólanum, um réttarstöðu hans og að sjálfsögðu verð ég að svara slíku bréfi. Í því felst ekki að ég hafi nein efnisleg afskipti af málinu; ég svara aðeins einfaldri fyrirspurn, líkt og mér ber að gera sem forstöðumaður stofnunar.“

Ekki undir stjórn HÍ

Þegar málinu var skotið til siðanefndar HÍ leit hún svo á að það væri á sínu forræði, þar sem seðlabankastjóri væri í „virku ráðningarsambandi“ við Háskólann, þótt hann væri í launalausu langtímaleyfi þaðan. Þegar háskólarektor komst að öndverðri niðurstöðu taldi hún sér ekki sætt lengur.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rektor rökstuddi niðurstöðuna með því að þeir, sem veitt hefði verið launalaust leyfi á grundvelli verklagsreglna HÍ til þess að taka að sér launuð störf annars staðar, væru ekki lengur undir stjórn Háskólans eða boðvaldi rektors og hefðu ekki þær skyldur, sem þeir höfðu meðan þeir störfuðu við Háskólann. Meðal annarra háskólamanna í sams konar leyfi frá HÍ og dr. Ásgeir má nefna Guðna Th. Jóhannesson forseta og Róbert Spanó, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu.

Siðanefndin samþykkti afsögnina samhljóða á fundi hinn 7. febrúar síðastliðinn og sendi þremur dögum síðar frá sér yfirlýsingu um hana til skipunaraðila í Háskólanum og málsaðila. Hún hefur ekki komið fram annars staðar og nefndarmenn eru enn tilgreindir á vef HÍ.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert