Raknadalshlíð við Patreksfjörð er lokuð vegna snjóflóðahættu og þá er ófært á Kleifaheiði og Klettshálsi og Dynjandisheiði er lokuð. Hálka og snjóþekja er á flestum öðrum leiðum á Vestfjörðum.
Vegurinn um Hellisheiði er lokaður en stefnt er á opnun í hádeginu og vegurinn um Mosfellsheiði er einnig lokaður og unnið er að mokstri en vetrarfærð er víðast hvar á landinu.
Í tilkynningu frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar kemur fram að hægfara skil séu austanlands en þau skili krapa á láglendi á Suðurausturlandi og Austfjörðum.
Á Fagradal og Fjarðarheiði er útlit fyrir talsvert þétta snjókomu í allan dag og með skafrenningi. Snjóar þar áfram á morgun.