Vilja veita þriðja aðila aðgang að Heilsuveru

Aðgangur umboðshafa mun ekki ná yfir upplýsingar beint úr sjúkraskrá …
Aðgangur umboðshafa mun ekki ná yfir upplýsingar beint úr sjúkraskrá einstaklings og lyfjasaga einstaklings mun takmarkast við ákveðið tímabil. Ljósmynd/Friðrik Tryggvason

Frumvarpið sem kveður á um að sérfræðilæknar geti veitt þriðja aðila umsýsluumboð vegna rafrænnar heilbrigðisþjónustu, er komið í samráðsgátt og er opið fyrir umsögnum til 28. febrúar næstkomandi.

Lagt er til að hægt verði að veita þriðja aðila umsýsluumboð fyrir hönd einstaklings sem er ófær um að nýta sér rafræna þjónustu heilbrigðiskerfisins eða veita öðrum umboð fyrir sína hönd. 

Á umboðshafi að geta nálgast þjónustuna á öruggan og rekjanlegan hátt, fyrir hönd hlutaðeigandi, segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Veitir aðgang að Heilsuveru

Umsýsluumboðið mun veita aðgang að heilbrigðisgáttum á borð við Heilsuveru, og öðrum rafrænum lausnum innan heilbrigðiskerfisins og opinberra stofnanna sem uppfylla þau skilyrði sem kveðið verður á um í reglugerð á grundvelli þessarar heimildar.

„Í dag eru hvorki aðstandendur né aðrir utan heilbrigðisstarfsfólks, með heimild til að aðstoða einstaklinga sem ekki geta notast við hefðbundin rafræn skilríki og þurfa á aðstoð annarra að halda við umsýslu sinna mála.

Frumvarp þetta til breytinga á lögum um sjúkraskrár nr. 55/2009 felur í sér heimild til handa sérfræðilæknum til að veita þriðja aðila umsýsluumboð fyrir hönd einstaklings 16 ára og eldri sem er ófær um að veita slíkt umboð sjálfur vegna andlegra og/eða líkamlegra skerðinga,“ segir í samráðsgáttinni.

Aðgangurinn verði ekki ótakmarkaður

Aðgangur umboðshafa verður ekki ótakmarkaður heldur verður hann bundinn við ákveðnar aðgerðir innan heilbrigðisgátta t.d. lyfjaendurnýjanir, tímabókanir, vottorð vegna t.d. Covid, örugg rafræn samskipti við heilbrigðisstarfsmann, opnun myndsamtals, yfirlit yfir bólusetningar og umsóknir um þjónustu eða réttindi tengd heilbrigðisþjónustu.

Þá mun aðgangur umboðshafa ekki ná yfir upplýsingar beint úr sjúkraskrá og lyfjasaga verður takmörkuð við ákveðið tímabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert