Anna Hildur Guðmundsdóttir, nýkjörinn formaður SÁÁ, býst ekki við frekari átökum innan samtakanna. Hún segir mikilvægt að endurheimta traust almennings á samtökunum.
„Það er mikilvægt að það skapist ró í kringum samtökin og þau geti haldið áfram að einblína á það verkefni að sinna alkóhólistum og aðstandendum þeirra. Einnig er mikilvægt fyrir okkur að fá aftur traust almennings á samtökin,“ segir Anna Hildur í samtali við mbl.is.
Einar Hermannsson sagði af sér formennsku í lok janúar eftir að hafa keypt vændi af konu sem var skjólstæðingur samtakanna.
Í kjölfarið bauð Þóra Kristín Ásgeirsdóttir sig fram til formanns en dróg framboðið til baka og sagði sig úr aðalstjórn vegna átaka innan samtakanna.
Spurð hvernig hægt væri að endurheimta traust almennings segir Anna Hildur mikilvægt að einblínt verði á starf SÁÁ en ekki einstaklingana sem vinna þar.
„Við þurfum að vekja eftirtekt á því sem við erum í raun að gera. Við erum að vinna rosalega gott starf, það þarf að einblína á það. Það eru ekki einstaklingarnir innan SÁÁ sem skipta mestu máli heldur samtökin.“
Anna Hildur tekur ekki við sem embætti framkvæmdastjóra félagsins eins og venja er. Í staðinn verður verkefnastjóri ráðinn inn í tímabundin verkefni sem fylgdu stöðu framkvæmdastjóra en einnig munu starfsmenn samtakanna taka að sér einhver verkefnanna.
Nýi formaðurinn segir mikinn samhug í stjórninni og leggur áherslu á að starfsemin haldi áfram sinn vanagang.
„Það er mikilvægt að starfsemin haldi áfram af því að þetta er mikilvæg starfsemi. Það er mikill samhugur í stjórninni og ég fer inn í þetta verkefni með þakklæti og auðmýkt,“ segir Anna Hildur.