Von á úrslitum fyrir kl. ellefu

Ólöf Helga Adolfsdóttir, Sólveig Anna Jónsdóttir og Guðmundur Jónatan Baldursson …
Ólöf Helga Adolfsdóttir, Sólveig Anna Jónsdóttir og Guðmundur Jónatan Baldursson bjóða sig fram til formanns. mbl.is

Kosningu næsta formanns og sjö stjórnarmanna í Eflingu stéttarfélagi lýkur klukkan 20 í kvöld og hefst þá talning atkvæða. Vonast er til að niðurstaða geti legið fyrir á ellefta tímanum í kvöld.

Kosningin hefur staðið yfir í eina viku og er bæði kosið rafrænt og skriflega á kjörstað. Þrír listar eru í framboði og keppa þau Ólöf Helga Adolfsdóttir, Sólveig Anna Jónsdóttir og Guðmundur Jónatan Baldursson um að verða kjörin næsti formaður félagsins. Um 25 þúsund félagsmenn í Eflingu eru á kjörskrá en ekki hafa fengist upplýsingar um hver þátttakan hefur verið í kosningunum til þessa. Halldór Oddsson, formaður kjörstjórnar, segir kosningarnar hafa gengið vel og vandað sé vel til verka. „Það hafa engir hnökrar komið upp og framkvæmdin hefur verið eins og best verður á kosið hingað til,“ segir hann.

Halldór kveðst gera ráð fyrir að flestir sem taka þátt kjósi rafrænt þótt sumir komi á skrifstofuna til að kjósa. Þeir félagsmenn sem vilja ekki kjósa rafrænt eða hafa ekki rafræn skilríki geta greitt atkvæði á skrifstofu Eflingar í Guðrúnartúni 1 í Reykjavík eða á skrifstofu félagsins í Hveragerði í Breiðumörk 19.

Standa vonir til að talningin taki styttri tíma en í stjórnarkjörinu árið 2018 þegar eingöngu var hægt að kjósa skriflega á kjörstað. „Talningin á ekki að þurfa að taka langan tíma núna að því gefnu að flestir hafi kosið rafrænt en við sjáum það ekki fyrr en við opnum kassana,“ segir hann. Eftir að kjörfundi lýkur kl. 20 þarf að flytja kjörkassa frá Hveragerði á skrifstofu Eflingar í Reykjavík en Halldór er bjartsýnn á að úrslit gætu legið fyrir á ellefta tímanum í kvöld ef allt gengur vel. omfr@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert