Fjarskiptastofa hefur sett fram tímasetta áætlun um lokun 2G (GSM) og 3G farnetsþjónustunnar hér á landi. Hefur stofnunin unnið að þessari áætlun í samstarfi við fjarskiptafyrirtækin sem reka almenn farnetskerfi hér á landi og verður unnið að útfösun 2G og 3G á næstu árum með það að markmiði að 2G þjónustu verði alfarið lokað í árslok 2024 og 3G í árslok 2025.
Greint er frá þessum áformum á vef Fjarskiptastofu þar sem birt er samráðsskjal um lokanirnar og tekið er á móti athugasemdum til 8. mars.
Með lokun þessarar þjónustu losnar um tíðnisvið og á rekstur farnetanna þar með að verða hagkvæmari og til þess fallinn að hraða uppbyggingu 5G háhraðaneta um land allt. „Lokun kerfanna mun hafa áhrif á þjónustu þeirra aðila sem notast við búnað sem einungis styður við 2G eða 3G. Er hér t.d. um að ræða búnað eins og neyðarhnappa, innbrotakerfi og mælitæki, auk farsíma sem einungis styðja 2G og/eða 3G. Farnetsfyrirtækin munu vinna með viðskiptavinum sínum við að greina hvaða búnað þarf að uppfæra áður en til lokunar kemur,“ segir þar.