Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, finnur að fréttaflutningi af rannsókn lögreglu tengdum fréttum af svonefndum „skæruliðahópi Samherja“, þar sem áherslan hafi öll verið út frá hagsmunum hinna grunuðu blaðamanna en ekki á því hverjar sakargiftirnar væru, líkt og venjan væri í ámóta fréttum.
Tilefnið voru fregnir af því að lögreglan á Akureyri hafi tekið mál til rannsóknar og boðað a.m.k. fjóra fréttamenn til yfirheyrslu með símtali á mánudag, en hið eina sem komið hefur fram af hálfu lögreglunni nyrðra er að embættið hafi brot á friðhelgi einkalífs til rannsóknar.
„Við höfum mátt venjast því í fréttaflutningi af lögreglumálum þegar almennir borgarar eiga í hlut að fjölmiðlar beini sjónum sínum að því hvað hinn grunaði kunni að hafa unnið til saka,“ segir Bjarni í færslu sinni á Facebook. Svo virðist hins vegar sem þessi hefðbundu vinnubrögð eigi ekki við í fréttum um blaðamennina.
„Engar fréttir hafa verið fluttar af því sem mestu máli skiptir og flesta þyrstir að vita hvað lögreglan kunni að hafa undir höndum sem gefi tilefni til rannsóknar. Þeir sem stjórnað hafa þeirri umræðu eru þeir hinir sömu og nú eru til rannsóknar.“
Bjarni gagnrýnir Ríkisútvarpið sérstaklega fyrir fréttir þar sem löglærður maður hafi verið látinn leggja mat á málavöxtu, út frá forsendum og getgátum blaðamannanna sjálfra, og komist að þeirri niðurstöðu að þá væri nær útilokað að ákæra yrði gefin út.
„Þetta er áður en nokkur maður veit hvaða gögn lögreglan hefur eða hvaða spurninga hún leitar svörum við,“ segir Bjarni og spyr: „Eru einhver fordæmi fyrir svona vinnubrögðum fréttastofu?“
Hann átelur Rúv. jafnframt fyrir að hafa ekki látið þess getið að sumir hinna grunuðu, sem hefðu uppi þessar tilgátur um hvað málið snerist, hefðu starfað á Ríkisútvarpinu. „Hefði það ekki sýnt lágmarks viðleitni til að gæta hlutleysis í máli sem virðist á algjöru byrjunarstigi?“
Fjármálaráðherrann telur málið vekja margar spurningar, ekki síst um stöðu fjölmiðlafólks í réttarríki, þar sem allir eigi að heita jafnir fyrir lögum. „Eru fjölmiðlamenn of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu eins og almennir borgarar?“
Hann bendir á að eigi blaðamenn þann lögvarða rétt, sem þeir hafi rætt um, þá sé hinum grunuðu ljóslega auðvelt að koma til yfirheyrslu og neita einfaldlega að svara spurningum lögreglu. Fordæmin sem nefnd hafi verið í því samhengi í fréttum dagsins, sýni einmitt að réttarríkið virki að því leyti og að fjölmiðlamenn þurfi enga forgjöf til þess að verja rétt sinn og hagsmuni.
Bjarni spyr hvort það þurfi virkilega öll þessi stóryrði áður en lögreglan spyr fyrstu spurningarinnar og lýkur máli sínu svo: „Við gerum öll kröfu til þess að hér á landi séu allir jafnir fyrir lögunum. Má gera þá kröfu að allir séu jafnir fyrir fjölmiðlunum líka?“