Eftirlit með Covid-smituðum færist frá Landspítala

Óskar Reykdalsson er forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Óskar Reykdalsson er forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Sigurður Bogi

Heilsugæsla og Læknavakt munu taka við meginhluta af þjónustu og eftirliti með Covid-19 veikum einstaklingum af Landspítala frá og með 16. febrúar. Þessi yfirfærsla er í samræmi við þróun heimsfaraldurs Covid-19 hér á Íslandi þar sem sífellt færri greinast alvarlega veikir.

Á þessum tímapunkti verður starfsemi Covid-göngudeildar og fjarþjónustu símavers Landspítala dregin saman, að því er fram kemur á vef Heilsugæslunnar.

Mikið veikum einstaklingum og fólki í sérstakri áhættu verður áfram vísað til mats og meðferðar á Landspítala. Fjarþjónusta Landspítala mun áfram meta svör fólks í Heilsuveru og hvort að  ástæða er til vöktunar símleiðis eða skoðunar í Birkiborg hjá Landspítala í Fossvogi. Spítalinn mun sömuleiðis hafa eftirlit með fólki á Farsóttarhótelum eins og þörf krefur. 

Heilsuvera verður miðlæg upplýsingalind fyrir smitaða einstaklinga. Þar fær fólk upplýsingar um sýkingu, leiðbeiningar og boð um útfyllingu spurningalista á svokölluðu heilsufarsblaði ef einkenna verður vart. Gert er ráð fyrir að endurnýjun lyfseðla fari að mestu fram í heilsugæslu. Sjúklingar geta haft samband á heilsuvera.is annað hvort við netspjall á ytri vefnum eða sent erindi á „mínar síður“. Einnig má hafa samband beint við heilsugæslustöð, Læknavakt, sími 1700 eða  hringja í 513-6400, Upplýsingamiðstöð Heilsugæslunnar áhöfuðborgarsvæðisins,“ segir á vef Heilsugæslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert