Geðheilsuteymi tryggt

Margir fangar þurfa á geðheilbrigðisþjónustu að halda.
Margir fangar þurfa á geðheilbrigðisþjónustu að halda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að tryggja rekstur geðheilsuteymis fanga til frambúðar með föstu fjármagni. Páll Winkel fangelsismálastjóri segist ánægður með ákvörðunina og vonast til að það skili sér í betri tengslum fangelsanna við geðheilbrigðisstofnanir.

Teymið var sett á fót sem nýsköpunarverkefni á sviði geðheilbrigðismála til eins árs árið 2020 og síðan framlengt um eitt ár. Fyrstu 10 mánuði fyrsta starfsársins, 2020, sinnti geðheilsuteymið 95 einstaklingum en á sama tímabili árið 2021 sinnti teymið 191 einstaklingi. Teymið veitir þjónustu í öllum fangelsum landsins og hefur 4,3 stöðugildi. Árlegur kostnaður við rekstur teymisins nemur um 84 milljónum króna.

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Við erum ákaflega ánægð með að það sé búið að festa þetta í sessi. Þetta er bráðnauðsynlegur þáttur í okkar kerfi. Það er gríðarleg þörf fyrir þetta teymi og það er nokkuð stór hópur einstaklinga í fangelsi í dag sem þurfa á mikilli geðheilbrigðisþjónustu að halda og jafnframt innlögn á sjúkrastofnanir,“ segir Páll.

„Ég vonast til að í framhaldinu skapist aukinn skilningur á að einstaklingar sem eru mjög andlega veikir og vistast hjá okkur þurfa innlögn á spítala.“ Hann leggur mikla áherslu á þá kröfu að „alvarlega veikir einstaklingar fái lögbundna heilbrigðisþjónustu á sjúkrastofnunum landsins hvort sem þeir eru fangar eða frjálsir menn“.

Fyrir tilkomu geðheilsuteymisins var einungis almenn heilsugæsla í fangelsunum og þar var geðheilbrigðismálum sinnt. Páll segir að læknar, hjúkrunarfræðingar og sálfræðingar þar hafi unnið gott starf en sérfræðiþekking sé nauðsynleg. Páll segir geðheilsuteymið skipta gríðarlega miklu máli til þess að skapa tengingu milli heilbrigðiskerfisins og fangelsiskerfisins. Nú þegar megi sjá mikinn ávinning af starfi teymisins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert