Karlmaður á sextugsaldri, með Covid-19 sýkingu, lést á gjörgæslu Landspítalans í gær.
Frá þessu greinir spítalinn í tilkynningu.
Þar með hafa 57 látist á Íslandi með Covid-19 sýkingu, ef marka má upplýsingar á vefnum covid.is.
Á þeim vef eru öll andlát sögð vegna Covid-19, en í tilkynningum spítalans að undanförnu er einvörðungu tekið fram að fólk hafi látist með sjúkdóminn.
Ekki er því ljóst samkvæmt uppgefinni tölfræði yfirvalda hversu mörg andlát eru beinlínis af völdum sjúkdómsins.