Bensínverð hefur ekki áður verið hærra í krónum en nú. Þó hafa bensínkaup stundum tekið þyngra í pyngjuna miðað við verðlagsþróun.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, hefur safnað upplýsingum um þróun bensínverðs um árabil og reiknað það til núvirðis.
Sett voru upp dæmi um hvað bíll sem eyðir átta lítrum á 100 km hefði komist langt á bensíni fyrir 10.000 kr. í febrúar 2007, 2012, 2017 og það sem af er febrúar 2022 miðað við meðalverð í sjálfsafgreiðslu hjá N1.
Runólfur segir að heimsmarkaðsverð á eldsneyti hafi oft verið hátt á árunum 2011-2014 og það skýrir hátt verð 2012. Í febrúar það ár kostaði lítrinn að meðaltali 249,65 kr. eða 301,88 kr. á núvirði. Heimsmarkaðsverðið er einnig mjög hátt nú og hefur ekki verið hærra í sjö ár.