Ný hýr tákn kynnt til leiks

Frá gleðiganga Hinsegin daga 2018.
Frá gleðiganga Hinsegin daga 2018. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samtökin 78 hafa kynnt fjögur ný og hýr tákn til leiks. Samtökin 78 og málnefnd um íslenskt táknmál stóðu saman að Hýrum táknum, nýyrðasamkeppni á táknmáli þar sem leitað var að táknum fyrir fjögur hinsegin orð.

Eikynhneigð, kynsegin, kvár og stálp eru orðin sem um ræðir og kom dómnefnd saman á degi íslenska táknmálsins til að velja sigurtillögurnar. Orðin eiga það öll sameiginlegt að hafa orðið til í Hýryrðum, nýyrðasamkeppni á íslensku raddmáli sem Samtökin 78 héldu áður.

„Þetta er fólk sem er bæði DÖFF og hinsegin og mikilvægt að DÖFF samfélagið geti líka tjáð sig sín á milli og notað þennan hinsegin orðaforða,“ segir Sigurgeir Ingi Þorkelsson, kynningar- og viðburðastjóri Samtakanna 78 í samtali við mbl.is og bætir við að þátttaka í keppninni hafi farið fram úr væntingum.

Táknin hafa mikla þýðingu

Þessi nýju tákn hafa mikla þýðingu fyrir Samtökin 78 sem vilja sýna það í verki að hinsegin sé alls konar. Fólk sé oft með ákveðnar staðalímyndir um hvað það þýði að vera hinsegin og hvernig hinsegin fólk lítur út. Það er samtökunum mikilvægt að sýna að hinsegin fólk sé alls staðar og sé stór og breiður hópur.

Samtökin 78 hafa kynnt ný hýr tákn.
Samtökin 78 hafa kynnt ný hýr tákn. Ljósmynd/Aðsent

Mordekaí Elí Esrason átti tvær af sigurtillögunum, fyrir orðin eikynhneigð og stálp. Eikynhneigt fólk finnur fyrir lítilli eða engri aðlöðun að öðru fólki og stálp er nýtt kynhlutlaust orð yfir barn, hliðstætt orðunum stelpa og strákur. Sigurtillögu fyrir orðið kynsegin átti Kristín Lena Þorvaldsdóttir en kynsegin fólk upplifir sig utan við hina hefðbundnu kynjatvíhyggjuskiptingu í karla og konur. Sigurtillögu fyrir kvár átti Anna Guðlaug Gunnarsdóttir en kvár er kynhlutlaust nafnorð yfir manneskju, hliðstætt við orðin karl og kona.

„Það er Samtökunum 78 mikilvægt að stuðla að því að allt hinsegin fólk á Íslandi geti talað um reynslu sína og sjálfsmynd, hvort sem móðurmálið er íslenska eða íslenskt táknmál,“ er haft eftir Þorbjörgu Þorvaldsdóttur, formanni Samtakanna 78 í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert