Plastið í Svíþjóð að litlu leyti frá Íslandi

Úrvinnslusjóður vinnur nú að breytingum á skilmálum fyrir þjónustu- og …
Úrvinnslusjóður vinnur nú að breytingum á skilmálum fyrir þjónustu- og ráðstöfunaraðila. AFP

Allur plastúrgangur, sem nú er á starfssvæði Påryd Bildemontering KB í Svíþjóð, er blanda plasts frá Íslandi og Svíþjóð og að mjög litlu leyti frá Íslandi, líklega einungis um 1,5% af um það bil 2.700 tonnum á svæðinu í heild.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Úrvinnslusjóð sem fór í vettvangsferð til Svíþjóðar.

Í lok ársins 2021 bárust fréttir af því að ís­lenskt plast hefði fundist óunnið í vöru­húsi í Svíþjóð. Sænska fyr­ir­tækið Sw­erec hafði þá ekki komið plast­inu sem sent var frá Íslandi í rétt­an far­veg.

Var þetta talið draga mjög úr trausti al­menn­ings á Íslandi til mik­il­væg­is þess að flokka plast.

Hafi fylgt öllum gildandi reglum

Tilgangur ferðarinnar var fyrst og fremst að skoða og meta magn flokkaðs úrgangs frá Íslandi á staðnum, en einnig að ræða við samstarfsaðila til að tryggja að allur plastúrgangur sem sendur er utan frá Íslandi fari í það ferli sem samið er um hverju sinni, hvort sem er brennslu til orkunýtingar eða annarra ásættanlegra nota.

Í tilkynningunni segir að það sé mat fulltrúa sveitarfélagsins í vettvangsskoðuninni að óumdeilt sé að útflutningsaðilar plastúrgangsins frá Íslandi til Svíþjóðar hafi fylgt öllum gildandi reglum þar um. 

„Fulltrúar sveitarfélagsins gera fyllilega ljóst að það sé hlutverk þess, en ekki annarra, að leysa það vandamál að koma úrganginum í endanlegt ferli, hvort sem er brennslu til orkunýtingar eða annarra nota,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Þrátt fyrir þetta vinnur Úrvinnslusjóður nú að breytingum á skilmálum fyrir þjónustu- og ráðstöfunaraðila sem ætlað er að tryggja enn betur rekjanleika úrgangs frá Íslandi og rétta og tafarlausa ráðstöfun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert