Íslandspóstur hefur ákveðið að loka póstafgreiðslustöðvum sínum í Rangárþingi, þ.e. á Hvolsvelli og Hellu, 1. maí.
Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, segir að Hvolsvellingar harmi ákvörðunina og vonist til að hún verði endurskoðuð. Þeir hafi m.a. áhyggjur af störfum sem tapast.
Hörður Jónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Íslandspósti, segir þjónustuna ekki eiga að skerðast við þessar hagræðingar. Póstbíll og póstbox eigi að taka við af póstafgreiðslunum.
Pakkasendingum hafi fjölgað en bréfum fækkað um 75% og henti þessar lausnir nýju rekstrarumhverfi.