Skilur að einhverjir óttist endurkomuna

Sólveig vill að boðað verði til aukaaðalfundar.
Sólveig vill að boðað verði til aukaaðalfundar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Agnieszka Ewa Ziółkowska, núverandi formaður Eflingar, verður aftur varaformaður þegar Sólveig Anna Jónsdóttir, nýkjörin formaður, tekur við embættinu eftir aðalfund. Þær munu því starfa saman í stjórn Eflingar á nýjan leik.

Agnieszka tók við formannsembættinu af Sólveigu þegar hún sagði af sér í lok október á síðasta ári, en hún hafði þá verið varaformaður frá árinu 2019. Hún á ár eftir af stjórnarsetu sinni, líkt og Ólöf Helga Adolfsdóttir, mótframbjóðandi Sólveigar í formannskjörinu og núverandi varaformaður. Ólöf fer aftur í embætti ritara að aðalfundi loknum.

Á ábyrgð stjórnarmanna að vinna af heilindum

Agnieszka, sem áður var stuðningsmaður Sólveigar, studdi Ólöfu í formannskjörinu og í grein sem hún ritaði á Vísir.is í kosningabaráttunni sagði hún Sólveigu ekki réttu mann­eskj­una til að leiða verka­lýðsbar­átt­una. Tel­ur hún Sól­veigu vera mál­svara sundr­ung­ar sem hafi ein­angrað sig frá flest­um þátt­um starf­sem­inn­ar og að hún hlusti ekki á radd­ir annarra.

Sólveig segir þessa afstöðu Agnieszku ekki hafa nein áhrif á áframhaldandi samtarf í stjórninni, hvað hana sjálfa varðar að minnsta kosti. Hún segir það á ábyrgð þeirra sem eru í stjórninni að vinna að heilindum fyrir félagsfólk.

„Ég veit hver mín afstaða er gagnvart mínum störfum fyrir félagið. Ég hef ávallt í störfum mínum með félagsfólki sýnt hollustu og lagt á það algjöra og augljósa áherslu að allt sem ég geri, sé með hagsmuni félagsfólks í algjöru fyrirrúmi. Ég auðvitað get ekki svarað fyrir það hvernig aðrir hafa komið fram eða hvernig þeir hyggjast koma fram. Ég get aðeins svarað fyrir sjálfa mig. Ég veit hvernig ég mun nálgast þetta verkefni og það er bara af þessari einbeittu og markvissu löngum til að berjast við hlið félagsfólks Eflingar í þeirra mikilvægu efnahagslegu réttlætisbaráttu,“ segir Sólveig í samtali við mbl.is.

Réttast að kalla saman aukaaðalfund

Hún er ánægð og þakklát fyrir það traust sem henni og félögum hennar á Baráttulistanum hefur verið sýnt til að leiða félagið og að berjast fyrir hönd verka- og láglaunafólks á höfuðborgarsvæðinu.

Að mati Sólveigar er réttast að kalla saman aukaaðalfund strax til að forystuskipti geti átt sér stað sem fyrst, en aðalfundur hefur yfirleitt farið fram í byrjun apríl. Það sé mikilvægt að fara að leggja drög að baráttunni sem framundan er.

„Það liggur ekki fyrir hvenær aðalfundur verður en það hlýtur að vera ljóst að ástæðan fyrir því að það var farið í það flýta kosningum var sú að það þarf að liggja fyrir raunverulegt umboð frá félagsfólki fyrir þá manneskju sem leiðir félagið og að mínu viti væri réttast að kalla saman aukaaðalfund til þess að þessi forystuskipti geti átt sér stað.“

Ekki farið fram umræða um Viðar

Aðspurð hvort hún vilji fá Viðar Þorsteinsson aftur inn sem framkvæmdastjóra félagsins segist hún ekki hafa úrslitavald um það.

„Það er bara stjórn sem tekur ákvörðun um það hver gegnir svona mikilvægum ábyrgðarstörfum á vegum félagsins.“

Muntu leggja það til sjálf?

„Engin umræða um neitt slíkt hefur farið fram, hvorki á vettvangi Baráttulistans né annars staðar.“

Með skýrt umboð til að stýra félaginu

Spurð hvernig hún sjái fyrir sér að koma inn á skrifstofuna aftur, eftir allt sem gengið hefur á segir hún það verða að koma í ljós.

Því hefur verið lýst yfir opinberlega af hálfu starfsfólks að margir séu óttaslegnir og kvíði endurkomu Sólveigar. Hún segist skilja að ákveðnir aðilar hafi áhyggjur.

„Ég skil auðvitað að fólk sem hefur til dæmis farið fram í fjölmiðlum með gífuryrðum, ásökunum og aðför að mannorð mínu hafi núna áhyggjur af því að ég muni koma aftur til starfa. En ég er búin að fara í gegnum þessa kosningu og er með þetta skýra umboð félagsfólks til þess að stýra félaginu. Það er nú bara svo.“

Telur þú þig geta starfað áfram með öllum þeim sem þarna vinna?

„Ég hef sagt það aftur og segi það aftur nú á ný að þær manneskjur sem hafa farið gegn mér opinberlega, til dæmis með greinaskrifum og vegið gróflega að mannorði mínu, starfsheiðri og persónu, ég get ekki ímyndað mér að þær hafi sérstakan áhuga á að starfa áfram á sama vinnustað og ég.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert