„Það er þung stemning“

Linda segir að starfsemin sé ekki í uppnámi þó starfsfólkið …
Linda segir að starfsemin sé ekki í uppnámi þó starfsfólkið sé það. Samsett mynd/mbl.is

Starfsfólk á skrifstofu Eflingar kom saman á óformlegum starfsmannafundi í morgun, en ákveðið var að boða til fundar eftir að niðurstöður stjórnarkosninga í Eflingu lágu fyrir. Þetta staðfestir Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Eflingar, í samtali við mbl.is.

Hún segir þunga stemningu í hópnum og margir séu að meta sína stöðu, en fólk hafi þó áfram augun á boltanum og sinni sínu starfi fyrir félagsmenn af metnaði og heilindum.

Það lá fyrir í gærkvöldi að Sólveig Anna Jónsdóttir yrði formaður Eflingar á ný, en Baráttulistinn, með hana í fararbroddi, bar sigur úr býtum í kosningum til stjórnar og formanns félagsins.

„Við ákváðum að hafa starfsmannafund morguninn eftir niðurstöður. Koma saman og fá okkur kaffi. Ég talaði aðeins við hópinn um mikilvægi þess að fólk vinni hérna inni af mikilli hugsjón. Fólk er að vinna af hjartanu fyrir félagið og fyrir félagsmenn. Þetta var líka svona hvatning til að halda augunum á boltanum og halda verkefnunum gangandi. Aðeins að fara yfir verkefnin og hvað er framundan hjá okkur. Þetta var því mjög óformlegur fundur,“ segir Linda í samtali við mbl.is. „Þetta var bara svona pínu stund saman. Ég hvatti fólk til að leita til sinna yfirmanna ef það væri hikandi með verkefni eða annað,“ bætir hún við.

Ætlar ekki að breyta sínum stjórnunarháttum

Sólveig hafði gengt embætti formanns frá árinu 2018 og þar til í október á síðasta ári þegar hún sagði af sér, eftir að starfsfólk vildi ekki draga til baka lýsingar á vanlíðan og neikvæðri upplifun í samskiptum við hana og Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins. Trúnaðarmenn starfsfólks höfðu afhent stjórnendum ályktun með þessum lýsingum og vonuðust eftir því að hægt væri að gera úrbætur til að bæta líðan fólks. Það fór ekki svo og vildi Sólveig meina að starfsfólkið hefði hrakið hana úr embætti. Í kjölfarið létu bæði hún og Viðar neikvæð orð falla um starfsfólkið bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.

Í viðtali við mbl.is fyrir skömmu sagði Ragnheiður Valgarðsdóttir, annar trúnaðarmanna starfsfólksins, að fólk væri óttaslegið og kviði mögulegri endurkomu Sólveigar á skrifstofuna. Var það upplifun starfsfólksins að fyrrverandi stjórnendur hefðu gefið skotleyfi á það með orðræðu sinni.

Í niðurstöðum vinnustaðagreiningar sem sálfræði- og ráðgjafastofan Líf og sál framkvæmdi kom fram að Sólveig og Viðar hefðu brugðist skyldum sínum sem stjórnendur. Þá hafa þrír fyrrverandi starfsmenn Eflingar stefnt félaginu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur vegna meintra kjarasamningsbrota og annarra ámælisverðar framkomum fyrrverandi stjórnenda.

Í samtali við mbl.is í gær, þegar niðurstöður kosninganna lágu fyrir, sagðist Sólveig ekki sjá ástæðu til að breyta sínum stjórnunarháttum, nú þegar hún hefði verið kosin formaður félagsins á ný. „Formaður Efl­ing­ar á að hafa al­gjöra holl­ustu gagn­vart fé­lags­fólki. Ég hef verið vak­in og sof­in í bar­átt­unni og mun bara halda því áfram. Með því hef ég náð mjög raun­veru­leg­um ár­angri. Þannig nei, ég sé enga ástæðu til að breyta um taktík,“ sagði Sólveig. Sú aðferðarfræði sem hún hafi stuðst við hingað til sé ár­ang­urs­rík og hún hygg­ist halda henni áfram.

Sólveig Anna fagnaði sigri í gær þegar ljóst var að …
Sólveig Anna fagnaði sigri í gær þegar ljóst var að hún yrði formaður Eflingar á ný. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fólk er að melta þetta allt saman“

Linda segir engar umræður um niðurstöðu kosninganna hafa átt sér stað í morgun. Fólk hafi ekkert tjáð sig um þau mál. „Fólk var kannski bara svolítið að melta stöðuna. Fólk er bara þar akkúrat núna. Fólk er að melta þetta allt saman og sína stöðu.“

Þrátt fyrir að niðurstöðurnar hafi ekki verið ræddar liti þær engu að síður andrúmsloftið á skrifstofunni.

„Það er þung stemning, en ekki þannig að fólk sé að tjá sig mikið. Fólk er bara að reyna að henda reiður á sínar tilfinningar og stöðuna og horfa fram á veginn. Þetta er ótrúlega gefandi starf, að aðstoða félagsmenn Eflingar. Það er virkilega mikil vinnugleði í kringum það. Fólk er kannski bara að stilla sig inn á það aftur. Það er mikill metnaður fyrir starfinu hér og fólk er mjög stolt af sínu starfi. Fólk er ekkert hér að starfa fyrir einhvern einn einstakling eða forystu. Það er að starfa fyrir félagsmennina númer eitt, tvö og þrjú.“ 

Linda bendir á að nú taki við millibilsástand þar sem ný forysta taki ekki við fyrr en eftir aðalfund, en hann hefur enn ekki verið boðaður. Undir venjulegum kringumstæðum ætti aðafundur að vera haldinn í byrjun apríl, en það er stjórnar að taka ákvörðun um það. „En það er ljóst að það verður einhver tími núna sem fólk hefur til að ná áttum og pínu jafnvægi. Það er bara okkar að styðja við fólkið og aðstoða það í sínum verkefnum.“

Starfsemin ekki í uppnámi þó starfsfólkið sé það

Sjálf er Linda einungis ráðin inn tímundið sem framkvæmdastjóri til 1. apríl, þannig hún mun væntanlega hverfa á braut áður en ný stjórn tekur við. „Mitt hlutverk var alltaf bara að koma hérna inn sem óáháður aðili. Ég tengist engum og þekkti engan. Ég kem inn sem óháður aðili til að halda skútunni á floti og verkefnunum gangandi og vera með yfirsýn. Þessi ráðning var gerð af umhyggju fyrir félagið til að passa að verkefnin færu ekki í súginn og að nýir stjórnendur gætu komið inn og byggt á því sem búið er að vera að gera í staðinn fyrir að byrja frá grunni.“

Linda tekur fram að hvað verkefnin varðar sé ekki óvissuástand, enda séu þau í mjög góðum farvegi með uppbyggingu innanhúss. „Við erum komin mjög vel á stað með innleiðingu á verkferlum og auknu gagnsæi, samstöðu, betri þjónustu og meiri sýnileika. Þetta er allt komið af stað. Skjalakerfi, gæðakerfi og jafnlaunavottun. Það er bara okkar núna að halda þeirri stefnu og halda verkefnunum gangandi.“

Hún segir starfsemina því ekki vera í uppnámi þó starfsfólkið sé í uppnámi. En það sé hennar áskorun að styðja fólk áfram í sínum verkefnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert