„Það getur hvaða lögmaður sem er sinnt þessu“

Jón segir að ráðuneytið sé nú í samvinnu við Ríkiskaup …
Jón segir að ráðuneytið sé nú í samvinnu við Ríkiskaup að skoða hvernig sé best að veita þessa þjónustu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mögulegt er að réttaraðstoð og talsmannaþjónusta hælisleitenda verði ekki boðin út nú þegar samningur innanríkisráðuneytisins við Rauða krossinn rennur út.

Þetta segir Jón Gunnarsson innanríkisráðherra í samtali við mbl.is.

Greint var frá því í gær að samningur innanríkisráðuneytisins við Rauða krossinn yrði ekki framlengdur. Því hefur öllum lögfræðingum samtakanna verið sagt upp störfum. Samningurinn rennur út 30. apríl.

Samningurinn löngu liðinn

Jón segir meðal ástæða þess að samningurinn hafi ekki verið framlengdur vera vegna þess að hluti verkefna hans sé að flytjast til félagsmálaráðuneytisins.

„Það var tvíþættur samningur í gangi við ráðuneytið. Annars vegar var það félagslega þjónustan við hælisleitendur og hins vegar talsmannaþjónustan. Þessi samningur var framlengdur í fyrra en það var ákveðið að framlengja hann ekki núna, meðal annars vegna þessara breytinga.“

Jafnframt segir hann samninginn vera löngu liðinn og ætti því ekki að koma á óvart að hann hafi ekki verið framlengdur.

„Samningurinn var löngu liðinn en hann var framlengdur síðast um eitt ár. Það hefur aldrei verið gefið út annað en að það stæði til að endurskoða þetta samkomulag.“

Útboð óvíst

Samkvæmt Jóni er ráðuneytið nú í samvinnu við Ríkiskaup að skoða hvernig eigi að að veita þessa lögbundnu þjónustu.

Hann segir að það verði leitað til aðila utan ráðuneytisins en ekki sé víst að verkefnið verði sett í útboð. Sem dæmi nefnir hann að hægt væri að semja við lögmannsstofur um að veita þjónustuna.

„Það getur hvaða lögmaður sem er sinnt þessu,“ segir Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert